Danskur kosningaáróður

Eins og ég nefndi um daginn kraumar allt í kosningabaráttu hér. Helstu sýnilegu einkenni hennar eru andlitsmyndir hangandi upp um alla ljósastaura, nokkuð sem maður á ekki að venjast að heiman. Hér eru nokkrar stemmningsmyndir sem ég tók í hressingargöngu í gær.

Fyrst er kannski rétt að taka fram stærstur hluti götulýsingar (a.m.k. í mínu hverfi) er þannig að strengdir eru vírar milli húsa og ljósin hengd í þá. Þar sem hús vantar handan götu eru möstur sem gegna hlutverki vírabera í stað þeirra.

Ég hef ekki orðið var við að neinn noti þessa staura í auglýsingar fyrr en núna í kosningaáróðrinum og það virðist þögult samkomulag um að ekki megi nota þá í öðru auglýsingaskyni en fyrir kosningar.

Auglýsingastaur

Eitthvað sá ég í blöðunum um að gaurinn með hattinn (sem er óháður og telur sér það helst til kosta að vera lesblindur) hafi þjófstartað og hengt sínar myndir upp fyrstur. Því er líka haldið fram að Venstre hafi orðið fórnarlömb skipulegs auglýsingastuldar.

Þeirra viðbrögð? Að fá sér lengri stiga!

Pólitíkus

Í gamla vestrinu voru krimmar hengdir upp í næsta staur hvar sem til þeirra náðist. Hér í Köben er hengt á alla staura sem til næst.

Margvíðir sósíaldemókratar

Og ekki þurfa allar auglýsingar að vera stórar til að vekja athygli. Þessi er límd á niðurfallsrör hér rétt við stigaganginn minn:

Bevar Christiania

En þrátt fyrir góða viðleitni flokkanna er ljóst að enginn þeirra fær atkvæði frá mér í þessum kosningum.


< Fyrri færsla:
Íslenskur tölvuleikjafyrirlestur
Næsta færsla: >
Nýjar myndir af Vilborgu
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry