Sér fyrir endan á endasprettinum

Á mánudagsmorgun fer ég í síðasta prófið mitt þegar við verjum fjögurra vikna verkefnið okkar. Þetta verður í fyrsta sinn sem ég fer í hóp-próf, hvað þá munnlegt, en ég held að við séum komin með solid prógramm sem státar meira að segja af meistara Elvis.

Undirbúningurinn er búinn að taka miklu lengri tíma en ég hafði gert ráð fyrir og gærdagurinn og dagurinn í dag hafa verið alveg undirlagðir undir þetta. Afraksturinn er kynning í AflPunktinum og meðfylgjandi textahandrit (freistandi að skrifa hér "tekst").

Ég mun byrja vörnina með því að renna yfir ferlið og afraksturinn, svo segir Christina frá lítilli notendaprófun sem hún framkvæmdi í vikunni, þá fer Mette yfir óvæntar vinsældir okkar í útlöndum og hvað við hefðum getað gert betur til að koma til móts við þær. Ég stíg svo aftur á stokk með fleiri glærur og hnýti endapunkt á okkar hluta prógrammsins, áður en við berum strjúpa okkar fyrir hrægömmunum (þ.e. áður en spurningahlutinn hefst).

Að sjálfsögðu er öllum meðulum beitt til að berja okkur sjálfum á brjóst og meðal annars verður tölunni 60.000 heimsóknum flíkað eftir þörfum.

Í gær rifjaðist upp fyrir mér ansi skemmtilegur titill á gamalli Elvisplötu og eftir smá grúsk á vefnum fann ég mynd af umslaginu, þannig að kynningu okkar mun ljúka á eftirfarandi myndum.

50,000,000 Elvis fans can't be wrong

60.000 besøg må vel også betyde noget...

Ég treysti því að kóngurinn, hvar sem hann er staddur, sé sáttur við tilvitnunina.


< Fyrri færsla:
Nýjar myndir af Vilborgu
Næsta færsla: >
Heldur þann ódýrasta en þann næstbesta
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry