Heldur þann ódýrasta en þann næstbesta

Það er kaldhæðnislegt í ljósi fyrri yfirlýsinga um aukin þroska í bjórsmekk að upp á síðkastið hef ég snúið baki við "alvöru" bjórunum í matvörubúðum og snúið mér að tilboðsbjórunum. Þannig eru tvær síðustu kippur sem ég keypti mér í Fakta "Ceres Top Classic" og "Albani Odense Classic", hvorttveggja í verðflokknum 3-4 krónur flaskan.

Tuborg, Carlsberg og félagar eru um tvöfalt dýrari, en það verður að segjast að þessir Classicerar standa þeim ekki langt að baki.

Í síðasta föstudagsbar var Shepherd Neame 1698 Celebration Ale því miður uppseldur, en þess í stað drakk ég upp lager barsins af Monty Python bjórnum. Hann olli ekki vonbrigðum.

Það var annars sögulegt við Fredagsbarinn að þetta var fyrsti dagur þeirra sem eru að byrja á þessari önn, þannig að það var mikið af nýjum andlitum.

Í anda lágklassa valsins hélt ég uppteknum hætti þegar heim var komið og í stað þess að grípa LOTR III eða Shrek II varð fyrir valinu stórmyndin Old School (I) úr safni Andreasar.

Ég get ekki beinlínis mælt með henni, en ég skellti nokkrum sinnum hressilega upp úr. Aðallega að gersamlega banal detta-á-rassinn bröndurum. Það hækkar eflaust skemmtanagildi myndarinnar að hafa drukkið nokkra Monty Python bjóra áður (eða hvaða önnur innbyrðing alkóhóls sem er), en Will Ferrell á sína spretti og mynd leikstýrt af manni sem helst hefur getið sér til frægðar að hafa leikstýrt Road Trip getur varla annað en verið skárri en maður á von á.

Í tilefni af yfirvofandi próflokum leyfði ég mér hins vegar þann munað í kvöld (sunnudagsaftan) að setja Return of the King überextended útgáfuna í tölvuna og tengja við sjónvarpið.

Um það hef ég aðeins fernt að segja:

  1. Minas Tirith er án efa einhver flottasta leikmynd kvikmyndasögunnar.
  2. Mikið agalega var erfitt að sýna sjálfsstjórn og setja ekki disk nr. 2 í þegar sá fyrsti lagði upp laupana í miðjum bardaga.
  3. Páskaeggið á disk nr. 1 er hrein snilld.
  4. OK, ég játa, þetta er bara "venjulega special" extended útgáfan, en það er svo langt síðan ég hef skrifað eitthvað með ümlaut.
  5. Ümlautið er líka tilvísun í áðurnefnt páskaegg.
  6. Þetta eru fjandakornið meira en fjögur atriði!

Farinn í bólið. Í fyrrinótt dreymdi mig m.a. að Davíð Oddsson hefði gefið mér 8 í einkunn í prófinu sem ég er að fara í á morgun. Hrokagikkurinn ég hefði í draumnum gjarnan viljað fá hærri einkunn...

Bíð spenntur eftir draumförum næturinnar.


< Fyrri færsla:
Sér fyrir endan á endasprettinum
Næsta færsla: >
Búinn, en pirraður
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry