Búinn, en pirraður

Jæja, þá er þessari önn lokið. Við lifðum prófið í morgun af, fengum 8 (um það bil íslensk sjöa) og erum drullufúl yfir því. Þetta var næstum súrrealísk upplifun, eins og að fara í próf í stærðfræði en fá einkunn á málfræðilegum forsendum.

Við fengum trekk í trekk spurningar um listræna vinkla á verkefninu - sem var alls ekki það sem við fengumst við. Þegar leiðbeinandinn okkar fór svo að gagnrýna strúktúrinn á skýrslunni okkar var mér öllum lokið, hann las reglulega í gegnum skýrsluna og kommentaði á hana meðan á ferlinu stóð þannig að ef hún var ómöguleg í uppbyggingu hlýtur hann að eiga hlut að máli.

Undir útskýringu þeirra á einkunninni okkar ákvað ég bara að halda kjafti og gefa þeim hið illa auga eftir bestu getu. Þetta var of súrrealískt til að hægt væri að svara neinu af viti.

En við stóðumst þetta að minnsta kosti. Það sem pirrar okkur mest er að okkur fannst við hafa lagt okkur fram um að skila góðri vinnu og vorum bjartsýn á að fá hana metna á réttum forsendum.

Við hefðum verið sátt við að fá 8 ef okkur hefði þótt verkefnið ganga illa, en þvert á móti vorum við ánægð og fannst við hafa staðið okkur vel. Hefðum við verið felld hefðum við örugglega klagað, en við nennum ekki að fara að standa í einhverju kvartanaveseni.

Nú gildir bara að gleyma þessum pirringi og mæta ferskur til leiks á nýrri önn.


< Fyrri færsla:
Heldur þann ódýrasta en þann næstbesta
Næsta færsla: >
Og þó...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry