Teningunum kastað, hálfa leið

Í dag sendum við verkefniskennaranum okkar tölvupóst og báðum um rökstuðning fyrir valinu á prófdómaranum í gær (prófessor í listasögu við Århus!) og einkunninni okkar. Það er fyrsta skrefið í átt að hugsanlegri formlegri kæru.

Bréfið er í aðalatriðum samið af mér og á að vera nokkuð strategískt uppbyggt, í því eru nokkur atriði sem liggja lágt en fáum við bein svör við þeim ætti það að reynast okkur gott vegarnesti.

Ég lá lengi andvaka í gær og velti vöngum yfir þessu öllu saman. Ekki svo að þessi einkunn sé einhver heimsendir og mér er nú orðið nokkuð sama um hana. Hins vegar er mjög ergilegt að hafa á tilfinningunni að við höfum ekki fengið að verja okkar vinnu á réttum forsendum.

Það þarf töluvert til að reita mig til reiði og ég er seinþreyttur til vandræða, en þegar mér finnst á mér brotið reyni ég að gera eitthvað í málunum.

Stemmningin undanfarna daga hefur rifjað upp svipað brölt í mér á t.d. Mekkano árunum þegar ég setti hnefann nokkrum sinnum í borðið - yfirleitt með merkilega góðum árangri.

En nú er að takast á við nýjar áskoranir nýrrar annar með opnum hug og sjá hvað setur í þessu kvartanaferli okkar.


< Fyrri færsla:
Og þó...
Næsta færsla: >
Leikur ársins?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry