Leikur ársins?

Ef ég væri skráður í aðdáendaklúbb Manchester United væri mér örugglega sparkað ef upp kæmist að ég missti af leiknum sem var að ljúka. Ég hafði velt því fyrir mér að fara upp á meginland og horfa á hann á sportsbar, en nennti ekki þegar til kom. Á móti fengi ég kannski nokkur stig í nördaklúbbi fyrir að klára að horfa á LOTR III í staðinn.

Eftir að myndinni lauk fylgdist ég spenntur með gangi mála á vefnum og með SMS sendingum frá litla bróður. Þetta virðist hafa verið snilldarleikur, en því miður missti ég af honum.

Heldur er ég hræddur um að formaður Hugleiks sé lítt sáttur, en til að gleðja hann aðeins birti ég smá pløgg, því hinir ódauðu rísa nú upp á ný.

Ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum þá er Memento mori samstarfsverkefni Hugleiks og Leikfélags Kópavogs. Yrkisefnið er hlutskipti þeirra sem eiga því (ó)láni að fagna að vera af einhverjum sökum ódauðlegir. Sýningin hefur fengið frábærar viðtökur, t.d. hjá gagnrýnanda Leiklistarvefsins (http://www.leiklist.is/page/mementoreview).

Sýnt var sjö sinnum fyrir áramót, en nú hafa verið áætlaðar átta sýningar til viðbótar, sem hér segir:

  • Fimmtudag 3. feb.
  • Sunnudag 6. feb.
  • Föstudag 11. feb.
  • Sunnudag 13. feb.
  • Föstudag 18. feb.
  • Sunnudag 20. feb.
  • Sunnudag 27. feb.
  • Föstudag 4. mars

Sýningar hefjast kl. 20:30 öll kvöldin og fara fram í Hjáleigunni í Félagsheimili Kópavogs.

Miðapantanir eru í síma 554 1985 eða á midasala@kopleik.is.

Hvernig væri nú að skella sér í leikhús?


< Fyrri færsla:
Teningunum kastað, hálfa leið
Næsta færsla: >
Meðaleinkunn: 10!
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry