Spennur vöktu lukku

Eins og góðum fyrirsögnum sæmir er þessi alveg á mörkum þess að vera lygi, en það er a.m.k. staðreynd að hárspennurnar sem ég var með í veislunni í gær vöktu athygli. Á leiðinni í veisluna fékk ég nokkur forundruð augnatillit gangandi vegfarenda og fyrsta kommentið þegar ég mætti á staðinn var að aðgangseyriskrefjandi lýsti því yfir að þetta væri "versta hair-do ever". Félagi hans var hins vegar ósammála og fékk vart vatni haldið af hrifningu.

Það voru ekki sérlega margir í búningum, kannski fjórðungur eða svo, en sumir voru mjög flottir. Mér fannst snjallasti búningurinn vera strákur sem mætti í svörtum jakkafötum, skyrtu og bindi, með svarta hanska, krúnurakaður og með strikamerki aftan á hnakkanum. Minimalískt og snjallt. (Fyrir þá sem ekki kveikja á vísuninni er hér vísbending).

Algerlega á hinum skalanum (non-minimalískur) var svo strákur sem mætti í loðnum appelsínugulum jakka með svörtum deplum og trefil í stíl, með Darth Wader grímu og geislasverð, skreyttur með gullkeðju og skæddur sandölum. Mjög óvenjuleg samsetning, en vakti óneitanlega athygli.

Ég á engar myndir af mér, þar sem ég var ekki kominn í fullan skrúða þegar ég fór að heiman og þegar ég kom aftur um nóttina var ég spennulaus. Þó var tekin ein mynd af mér þegar ég skrapp á barinn, ég veit ekkert hvort sú mynd verður einhverntíman gerð aðgengileg. Þó veit ég að ég leit skelfilega út á henni svo ég efast um að ég myndi birta hana hér þótt ég fyndi hana.

Staðalbrandari kvöldsins var að ég væri "en sød lille pige i jakkesæt - måske ikke så sød, og ikke særligt liten, men jeg har i det mindste jakkesæt på..."

Þegar ég svo vaknaði í morgun eftir tæpra fjögurra tíma svefn var ég ekki hressasta dýrið í skóginum, en líðanin skánaði eftir fisléttan morgunverð og smá panódíl. Með einbeittum brotavilja og ástundun tókst mér að sofna aftur þrátt fyrir að nágrannarnir virðist hafa verið að negla gólflistana á sama tíma, með meðfylgjandi linnulitlum hamarshöggum sem eyrnatappar höfðu ekkert að segja í.

Ég vaknaði aftur um tvöleytið og var þá mun hressari og hef bara hresst síðan.

Mottó helgarinnar er annars "Áfram Manchester... City!"


< Fyrri færsla:
Laukurinn um Google ársins
Næsta færsla: >
Ég skal mála allan heiminn...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry