Ég skal mála allan heiminn...

Svona rétt áður en brestur á með fullum þunga nýrrar annar (sem gerist líklega núna í vikulokin) er ég að rembast við að snurfusa og uppfæra undirstöðurnar hér á thorarinn.com (einu sinni sem oftar) og verður satt best að segja lítið úr verki. Vandamálið er að ég ætla að gera allt of margt í einu...

Það sem mig langar að gera:

 • Vefa gerbreytt útlit sem er ekki jafn kassalaga og með allt öðruvísi litanotkun
 • Stýra öllum litbrigðum og stílum með einu CSS skjali
 • Koma öllu núverandi innihaldi fyrir á lógískari og aðgengilegri hátt
 • Breyta aðeins framsetningunni á dagbókarfærslum til að geta kreist út meiri tölfræði um lestur
 • Bæta við "fyrri færsla/næsta færsla" - virkni í dagbókarfærslum
 • Koma upp kommentakerfinu sem ég er í raun búinn að skrifa
 • Græja efnisflokkun dagbókarfærslna og tungumálarofa (enska/íslenska)
 • Uppfæra alla texta sem nú eru utan við dagbókina (og verða þar áfram)
 • Snyrta PHP-ið sem stýrir allri birtingu
 • Fínpússa virknina á dagbókarumsjóninni
 • Og eflaust eitthvað fleira

Og hvar er ég staddur eftir strit undanfarinna daga?

Ætli ég sé ekki svona hálfnaður með fyrsta liðinn, og þar með líka annan og þriðja.

Vandamálið er svolítið það að ég er alltaf að gleyma mér í grúski á einhverjum smáatriðum í stað þess að horfa á stóru myndina fyrst og fínpússa svo síðar. En það er svo sem ekkert nýtt að ég sé töluverður sveimhugi (sér í lagi þegar á að heita að ég sé að taka til eða þrífa). Þetta kemur vonandi með vorinu, þegar ég læri meiri verkefnastjórnun og get farið að beita aðferðunum á sjálfan mig.

Ef einhver veltir því fyrir sér hvers vegna ég sé að standa í þessu, af hverju ég nota ekki bara Blogger, Movable Type, Wordpress eða eitthvað af hinum prýðilegu ókeypis verkfærunum þarna úti er mitt svar að spyrja á móti: Hvers vegna hnýta veiðimenn sínar eigin flugur? Hvers vegna nennir nokkur að smíða húsgögn eða mála sín eigin málverk?

Já, eða skrifa sín eigin leikrit?

Vegna þess að grúsk er skemmtilegt!


< Fyrri færsla:
Spennur vöktu lukku
Næsta færsla: >
Sárt er sameiginlegt bull
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry