Sárt er sameiginlegt bull

Fyrirsögn dagsins er tilvitnun í fyrrum lærimeistara minn, Sverri Pál, sem strangt til tekið kenndi mér aldrei neitt svona formlega en er óneitanlega ein af lykilpersónum í skólagöngu allra MA-inga. Þessi orð lét hann á lyklaborð falla um íslenska knattspyrnulýsendur.

(Mér flaug í hug að í stað þess að láta orð falla á lyklaborð hefði ég getað talað um að leggja þau í gagnagrunnsbelg. Ég er mjög feginn að ég hætti við það, lyklaborðsútúrsnúningurinn er nógu slæmur.)

Hér í veldi bauna stefnir í að þáttum með bullukollum í sjónvarpi fækki snarlega, því nú er kosningum lokið og danskurinn virðist í aðalatriðum hafa kosið óbreytt ástand.

Mitt persónulega afrek í dag var að fara aftur út að hlaupa, svipaðan hring og síðast gegnum Pusherstreet og Christianshavn. Gekk bara vel og ef strengjaáþján reynist ekki úr hófi næstu daga ætti ég að geta endurtekið leikinn á fimmtudagsmorgun, þá fer ég ekki í skóla fyrr en eftir hádegið.

Í dag skilaði ég svo fyrsta verkefni annarinnar, í grafískri hönnun. Skilaði inn fjórum "komposisjónum" úr ferhyrningum, sporöskjum/hringjum og þríhyrningi sem áttu að vera "symmetrísk", "asymmetrísk", "létt" og "þung". Svo er að sjá hvað kennarinn segir við þeim tilþrifum mínum.

Reyndar rifjast það upp fyrir mér að ég er enn ekki búinn að fyrirgefa Sverri Páli gildru sem hann lagði í íslenskuprófi í fyrsta bekk. Við áttum að beygja nokkur orð/samsetningar í öllum föllum og tölum. Ein þeirra var "margt fé" sem ég rembdist við að beygja í fleirtölu líka, þótt illa gengi (frá mörgum féum). Eftirá kom í ljós að Sverrir Páll hafði hjá sínum bekkjum fyrr um veturinn tekið fé sem dæmi um orð sem ekki væri til í fleirtölu - það hafði Valdimar ekki gert. Þetta var því mismunun af verstu sort.

Ég er enn bitur. (Og þvæ mínar hendur af allri ábyrgð, ég gerði bara það sem mér var sagt!)

Nýjasti pistill SvP er um styttingu framhaldsskólans, það er hugmynd sem ég hef aldrei skilið og ég er sammála honum um að það væri nær að stytta grunnskólann. Þar lærir maður hvort eð er ekki neitt.

Minnir mig.


< Fyrri færsla:
Ég skal mála allan heiminn...
Næsta færsla: >
Gantast á kostnað upplitaðra
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry