Hlaupt á ný

Eftirköst hlaupa minna í fyrradag ollu miklum vonbrigðum, ég fékk enga strengi. Fyrir vikið reyndi ég að taka aðeins betur á því í hlaupinu í morgun og er ekki frá því að það hafi tekist. Að vísu er sjálfsaginn ekki meiri en svo að rigningarlegt veðurútlitið dró aðeins úr hlaupaáhuganum og seinkaði brottför. Þegar til kom var veðrið prýðilegt niðri á götuhæð, smá úði en frekar hlýtt miðað við kulda nýliðinna daga.

Þegar ég kom heim fór hins vegar að hellirigna og því sit ég enn heima og bíð eftir að stytti upp - í stað þess að hafa farið yfir í skóla til að borða hádegismat.

Aðalókosturinn við stundaskrá annarinnar er hvað ég er sjaldan í hádegishléum í skólanum, fyrir vikið er maður ekki að hitta kunningjana í mötuneytinu. Ég er bara með einn kúrs með alvöru hádegishléi, kúrsinn í dag byrjar ekki fyrr en 13:30 og grafíski kúrsinn er kvöldkúrs sem byrjar klukkan 17.

Eftir að ég kom mér upp netinu hérna heima er ekki eins mikill hvati til að koma sér í skólann þá daga sem ég er ekki í tímum. Hins vegar verður mun meira að lesa á þessari önn en þeirri síðustu, þannig að ég geri ráð fyrir að venja mig á að taka 2-4 tíma lestrarskorpur á lesstofunni þá daga sem ég er ekki í kennslustundum.

Annars er það að hlaupa án þess að fá strengi svipað og áfengisneysla án timburmanna - hálfgerð vörusvik.

(Hvar er kaldhæðnistáknið á þessu helv. lyklaborði?)


< Fyrri færsla:
Gantast á kostnað upplitaðra
Næsta færsla: >
Bixí færsla
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry