Gulrótarsteik

Heldur hefur þetta verið tíðindalítil helgi. Ég hef að mestu haldið mig heimavið og þóst vera að saxa á lærdóminn. Útlitið var þó ekki gott þegar ég uppgötvaði um hádegið á laugardeginum að ég hefði týnt bakpokanum mínum.

Reyndar hafði ég strax sterkan grun um hvar hann gæti verið og það reyndist rétt hjá mér. Á leið heim á föstudagskvöldinu hafði ég komið við hjá vini mínum Jónatan til að grípa með mér kvöldmat og þar hef ég hengt bakpokann á stólinn og gleymt honum þegar ég stóð upp.

Þegar ég birtist á laugardeginum hitti ég á Jónatan sjálfan (ég hef reyndar ekki hugmynd um hvað hann heitir, en hann er greinilegur top-dog á stað sem heitir Jonatan's PizzaIndisk þannig að ályktunin liggur beint við). Þar var pokinn í góðu yfirlæti með nýju rándýru skólabókunum.

Kvöldverður laugardagsins var svo mínútusteik með pönnusteiktum kartöflubátum og papriku, sveppasósu og helling af salati.

Ég kláraði reyndar kartöflurnar og kjötafgangurinn var ekki sérlega mikill. Sunnudagssteikin var því pönnusteikt blanda af gulrótum, papriku og nautakjöti með sósu og salati. Prýðilegt.

Hér í baunaveldi er annars nokkuð heimilislegt. Í gær fór að snjóa um allt land og nú er allt hvítt. Hér í Köben náum við reyndar ekki 30 sentimetrunum sem sumsstaðar féllu á Jótlandi. Stemmningin hér er meira slabbkennd, minnir á Reykjavíkina.

Seinnipartinn í dag kláraði ég næsta verkefni í grafískri hönnun, póstkort fyrir opinn dag í grafíska háskólanum. Við fengum texta, lógó skólans og nokkrar myndir til að velja úr. Ég endaði í rauðum lit á forsíðuna og fótósjoppaði frímerki úr lógói skólans á bakhliðinni. Ég er bara nokkuð sáttur við árangurinn.

Verkefni: Framhlið póstkorts

Verkefni: Bakhlið póstkorts

Ég veit ekki hversu greinilegt það er, en hlutföllin í kortinu eru byggð á hinu sögufræga gullinsniði. A.m.k. var það ætlunin.

Svo erum við búin að fínpússa kæruna okkar, hittumst í fyrramálið og göngum frá því að afhenda hana.


< Fyrri færsla:
Bixí færsla
Næsta færsla: >
Vilborg er farin að ganga
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry