Ársskýrsla thorarinn.com 2004

Mun seinna en til stóð birtist hér lox ársskýrsla síðastliðins árs. Eins konar úttekt á árinu sem er liðið. Vonandi verður næsta ársskýrsla örlítið tímanlegar í útgáfu.

Þegar 2004 rann í garð var ég staddur á Egilsstöðum í hefðbundnum áramótakvöldverði. Tók það rólega, dreypti á freyðivíni og var kominn (tiltölulega) snemma í rúmið.

Í upphafi 2004 var ég starfsmaður borgarverkfræðings sem upplýsinga- og þjónustufulltrúi og hafði verið það í rétt tæplega 2 ár. Ég var svo gott sem búinn að ákveða að sækja um í IT-Universtitetet að hausti og stúderaði námsbæklinginn í jólafríinu. Líkt og öll önnur áramót sem ég hef verið á Egilsstöðum var ég einhleypur, en þessi áramót hafði ég þó netfang ungrar konu og fyrirheit um frekari hitting.

Skömmu fyrir jól hafði ég látið verða af gamalli hugdettu og farið á samlestur hjá leikfélaginu Hugleik. Mitt fyrsta verk þegar ég kom aftur suður á nýju ári var að fara á annan slíkan. Þar þótti ég sýna slík tilþrif í leiklestrinum að ég fékk þögult hlutverk rússnesks hnífakastara í leiklistarstórvirkinu Sirkus.

Fyrstu mánuðir ársins fóru að mestu í leikæfingar og í beinu framhaldi af því tóku sýningar við. Milli æfinga stungum við netfangið saman nefjum, en eftir tilraunastarfsemi vorum við sammála um að púsluspilið væri ekki að ganga upp. Í miðju æfingaferlinu fór ég til sérfræðings og fékk staðfesta eigin sjúkdómsgreiningu; ég er baritón, heldur í dýpri kantinum en hitt (heitir víst að vera lýrískur barítón). Frumsýnt var 28. febrúar og gekk vel.

Í upphafi árs flutti thorarinn.com lögheimili sitt til hýsingarfyrirtækisins Lunarpages og í byrjun mars kláraði ég að græja gagnagrunnsvirkni fyrir dagbókina. Við flutninginn opnuðust margvíslegir möguleikar svo sem að búa til undirvefi á borð við Vasavef föðurbræðra minna, búa til ný netföng að vild og njósna um vefumferð.

Fyrsta apríl tilkynnti ég um trúlofun mína og Önnu, jemenskrar prinsessu, og bauð í trúlofunarveislu.

Kynnin af Hugleik undu upp á sig þegar leið á árið. Í lok mars fór ég á fund með höfundahópi félagsins sem rúllaði af stað bolta sem reyndist enda í Borgarleikhúsinu um haustið. Á einþáttungahátíð í Svarfaðardal í maí þreytti ég mína textafrumraun með félaginu þar sem ég sveiflaði mér í risastórri bleyju/hoppirólu og hóf verkið á orðunum "Mikið djöfull er ég búinn að skíta á mig núna!".

Í Svarfaðardalinn snéri ég tæpum mánuði síðar og var þar í rúma viku í leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga. Það var mikil og góð reynsla.

Stór hluti sumarsins fór í að fara á tónleika, hápunktur hvurs voru Metallica tónleikarnir í Egilshöllinni. Að öðru leyti fjaraði sumarið út án teljandi tilþrifa, en ég tók þó viku heima í sveitinni.

Nokkuð viss um að ég kæmist inn í ITU hafði ég sagt upp störfum með fjögurra mánaða fyrirvara í apríllok og þegar ég kom heim úr leiklistarskólanum beið mín staðfesting á inntöku í ITU. Þar með urðu skörp þáttaskil í tilverunni og ég fór að vinna í útför minni af nokkrum dugnaði.

Dugnaðurinn var þó ekki meiri en svo að ég lenti í tímahraki á endasprettinum og náði hvorki endaspretti né öðrum fyrirhuguðum sprettum í 10 km. hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu. Klakinn var svo kvaddur mánudagsmorguninn 23. ágúst og ég lenti í Köben án þess að vera búinn að tryggja mér húsnæði. Eftir viku á stofugólfinu hjá Hönnu Birnu og Jesper fann ég mér herbergi á prýðilegum stað á Amager og flutti inn daginn eftir. Er þar enn í þessum orðum rituðum.

Vísa að öðru leyti til ársþriðjungsskýrslunnar um dvölina í danaveldi.

Í október var lítill einþáttungur eftir mig frumsýndur á einþáttungakvöldi Hugleiks. Í lok október var önnur frumsýning á sama einþáttungi í Borgarleikhúsinu eftir að hann var valinn til þátttöku á sérlegri einþáttungahátíð. Að sjálfsögðu skellti ég mér heim á klaka að berja þessa síðari frumsýningu augum. Ég er enn montinn af því að hafa komið fyrsta leikverkinu mínu á svið með svo glæsilegum hætti, þótt Hugleikfélagar mínir eigi auðvitað stærstan hlut af því monti.

Þegar 2005 rann í garð var ég staddur í Hafnarfirði, tók það rólega líkt og árinu áður.

Í upphafi árs er ég háskólanemi og hef verið í fjóra mánuði. Ég er einhleypur, án netfanga en komst þó að því í jólafríinu að á íslenska farsímakortinu mínu er símanúmer sem ég hef aldrei hringt í, en fékk það á sínum tíma hjá sjálfskipuðum hjúskaparmiðlara mínum gegn því að hringja ekki án tilskilins leyfis. Veit ekki hvort ég á nokkurntíman eftir að hringja í það - spyr miðlarann við tækifæri.

Á árinu 2004 hefur vefdagbókin þróast frá því að vera aðallega útrás fyrir ritræputilraunir yfir í það að vera meira í formi reglulegrar skýrslugjafar til fjölskyldu og vina. Með öðrum orðum að færast meira og meira yfir í að vera venjulegt... blogg.

Árið 2004 verður helst minnisstætt fyrir Hugleiksstarfið, flutninga til útlandsins og síðast og allra síst fyrir að vera árið þegar ég kom mér upp heiftarlegu tannkuli (mæli ekki með þeim ósóma).

Og á þeim orðum lýkur fyrstu ársskýrslu thorarinn.com.


< Fyrri færsla:
Vilborg er farin að ganga
Næsta færsla: >
LÍN og VKS pína mín
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry