LÍN og VKS pína mín

Þær sækja að mér þriggja stafa skammstafanirnar og ergja mig. Nú sýnist sýnist allt benda til að ég fái reikning frá LÍN áður en ég fæ frá þeim útborguð námslán fyrir þessa önn! Ég er ekki búinn að skapa mér mynd af því hvert samfarir mínar og VSK kerfisins munu leiða, en er nokkuð viss um að þær munu valda mér áframhaldandi heilabrotum og martröðum í svefni sem vöku.

Þessi upphafsmálsgrein var eflaust með öllu óskiljanleg, en ég skal prófa að umorða (í löngu og ítarlegu máli eins og minn er siður).

LÍN stuðið byrjaði þegar ég fékk tölvupóst þess efnis að ég gæti sótt um undanþágu frá vorgreiðslu námslánanna þar sem ég væri í námi. Sækja yrði um slíkt fyrir 11. febrúar. Ég stökk til og smellti á tilhlýðilegan link í rafsamskiptaboxinu mínu. Þá fékk ég að vita að ég hefði ekki uppfyllt kröfur um námsframvindu og gæti því ekki sótt um frestun. Eftir skeytasendingar fékk ég að vita að þegar ég hefði sýnt fram á 75% námsárangur gæti ég sótt um. Eftir frekari skeytasendingar fékk ég svo eyðublað sem ég átti að fylla út og faxa til LÍN. Þar kom fram að til þess að uppfylla skilyrðin um frestun á afborgun þurfti ég að sýna námsframvindu OG vera með undir 1,7 milljónum í tekjum á árinu 2004.

Ekki svo að skilja að ég hafi verið á gullslegnum spena hjá Reykjavíkurborg, en tekjur mínar þar voru samt um 1,9 milljónir árið 2004 - auk smávægilegra aukatekna annarsstaðar frá.

Ég þarf því að punga út fyrir vorafborguninni og miðað við að enn er ekki komin formleg einkunn fyrir síðasta prófið mitt inn í tölvukerfi skólans (það er í ofanálag prófið sem við vorum að kæra í gær) (með bíræfinni skjalafölsun, en það ræði ég ekki frekar á svona opinberum vettvangi) sé ég ekki fram á að fá greitt út námslán liðinnar annar alveg á næstunni.

Vask-höfuðverkurinn (í daglegu tali "vaskverkur" eða "höfuðvaskur") á sér svipaðan uppruna, þ.e. í tekjutölum.

Ég sé fram á að frílansinnkoma mín á árinu 2005 fari yfir 220 þúsund (miðað við að bráðlega ætti ég að geta sent út reikninga upp á um 120-140 þúsund fyrir vinnu sem ég hef unnið það sem af er árinu). Þegar yfir 220 þúsundin er komið ber mér að standa skil á virðisaukaskatti.

Reyndar trúi ég því statt og stöðugt að það sé ekki jafn flókið og vefur Ríkisskattstjóra reynir að telja mér trú um. Í samræmi við þá trú mína ætla ég að prófa að halda áfram að leiða þetta hjá mér og sjá hvort skilningur á virðisaukakerfinu kemur ekki bara af sjálfu sér...

Ef ekki þarf ég líklega að senda Tollstjóranum í Reykjavík bréf og melda mig inn í vaskregisterið.

Ábendingar frá lesendum sem kunna grunnatriði í vaskfræðum eru vel þegnar.


< Fyrri færsla:
Ársskýrsla thorarinn.com 2004
Næsta færsla: >
Systkinafjöld í stórborginni
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry