Vitnað í Varríus

Einn af þeim vefjum sem ég les nokkuð reglulega (og heimsæki oftar en þörf krefur þar sem hann býður ekki upp á rss þjónustu) er vefur Varríusar. Varríus þessi gegnir í daglegu tali nafninu Þorgeir Tryggvason, uppistandaraslátrari og orðsins altmuligtmand, auk þess að vera formaður Hugleiks.

Í dag vísar Varríus á ljóðið I Ate iPod Shuffle sem er skemmtilegur lesningur.

Mín uppáhaldshending er þar sem hetjan hefur nýlega séð Steve Jobs applegúrú í hillingum:

Then faster than a broadband pipe,
He vanished in a flash of hype.

Þessi hending passar einstaklega vel við efni sem ég hef verið að grúska í með aðstoð vefsins undanfarna daga. Efni sem ég mun segja betur frá hér innan skamms.

Nýlega hefur Varríus líka velt sér upp úr Bacon leiknum, sem hefur ekkert með steikta svínafitu að gera, heldur nánd við leikarann Kevin Bacon. Sjá nánari útskýringu hjá Varríusi og í Bacon véfréttinni hjá Virginíu háskóla.

Fyrir utan að vera fróðlegur leikur sem getur leitt í ljós merkilega hluti, á borð við þá að meistari Bjarni Þór Sigurðsson (einn fjölmargra fyrrum sambýlismanna minna sem eru einnig fyrrum samstarfsmenn mínir) hefur beikon töluna 2, gefur þessi leikur innsýn í áhugaverða kenningu um tengsl manna um allan heim (það sem í dag heitir tengslanet).

Kenningin um sex þrep aðgreiningar (six degrees of separation) gengur í stuttu máli út á það að hægt sé að tengja alla menn á jörðinni (núlifandi(?)) með sex milliskrefum (gegnum fimm manneskjur). Það hefur reynst erfitt að sanna þessa kenningu stærðfræðilega, en tilraunir hafa stutt hana.

Mér finnst fróðlegt að spá í hvernig þessi regla myndi vera ef hún væri heimfærð upp á Íslendinga sem Íslendingabók Kára hefur sýnt að eru allir meira eða minna fimm- og sexmenningar ættfræðilega séð. Á Íslandi er það nú einu sinni þjóðaríþrótt að "þekkja mann sem þekkir mann..." og ég ætla að gerast svo djarfur að koma með þá tilgátu að hjá Íslendingum séu að hámarki þrjú aðskilnaðarþrep.

Með öðrum orðum þarf aldrei nema milliliðina A og B til að tengja mig við hvaða Íslending sem er.

Ég hef engin vísindaleg rök til að styðja þetta, en finnst tilgátan ekki verri en hvað annað.

Kannski er að lokum rétt að geta þess að fyrrum sambýlis- og samstarfsmenn mínir eru ekki jafnmargir og ýjað var að hér að ofan. Bjarna Þór og Jóni Heiðari er kannski betur lýst sem góðmennum hópi heldur en sérlega fjölmennum.

Þeir hafa (svo dæmi sé tekið) báðir tengslatöluna 1 við mig og innbyrðis.


< Fyrri færsla:
Systkinafjöld í stórborginni
Næsta færsla: >
Memory to self...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry