Önnin framundan

Eftir prufuvikurnar er ljóst að ég tek þá þrjá kúrsa sem ég hafði valið fyrirfram. Raunar fór það svo að ég mátaði enga aðra, þeir kúrsar sem ég gat huxað mér að taka voru á sömu tímum og þeir sem ég var ákveðinn í að taka. Þá sem ég hafði upphaflega valið er ég ánægður með og nú verður ekki aftur snúið.

Eins og ég nefndi einhverntíman er yfirskrift annarinnar "skynsamlegir kúrsar", með grafíska hönnun með til að lífga aðeins upp á teoríuna.

Kúrsar annarinnar eru því:

  • Forundersøgelse
  • Projektledelse og produktion af digitalt indhold
  • Grundlæggende grafiskt design

Viðfangsefnin í grafískri hönnun og verkefnastjórnun held ég að segi sig sjálft, forundersøgelse er hugtak sem ég er smám saman að átta mig á sjálfur og hef eflaust gott af því að reyna að útskýra hér skriflega.

Aðferðin byggir á rannsóknarvinnu þriggja danskra IT grúskara og einn þeirra kennir kúrsinn. Kennslubókin er að sjálfsögðu á dönsku, en hún er líka til á ensku og heitir þar Participatory IT Design : Designing for Business and Workplace Realities

Þetta snýst í stuttu máli um aðferð við frumhönnun upplýsingatækniverkefna, þ.e. ferlið frá því að ákveðið er að láta reyna á hugmynd og þar til hægt er að bjóða út verkið. Ferlið snýst um að skýra hugmyndir og það sem að baki þeim býr, greina raunveruleg vandamál og þarfir og loks vinna tillögur að lausnum.

Afraksturinn er skýrsla þar sem er að finna:

  • Greiningu á þörfum og möguleikum
  • Sameiginlega framtíðarsýn um breytingar
  • Afleiðingar breytinga
  • Efnahagsþætti
  • Strategíu og áætlun um framkvæmd
  • Frumgerðir og/eða skissur

(Já, þetta er skrifað beint upp úr fyrirlestrarglósum.)

Þessa aðferð eigum við að æfa með "alvöru" verkefni. Hópurinn minn hefur átt í brasi með að finna verkefni, en nú er búið að setja á fund með Dansk Institut for Internationale Studier (DIIS) Afdeling for Holocaust- og Folkedrabsstudier þar sem við ætlum að skoða fræðslu til grunnskólanema um helförina og þjóðernishreinsanir. Verður fróðlegt.

Verkefnin mín úr grafískri hönnun hef ég birt hér jafnóðum og kem líklega til með að halda því áfram.

Kennarinn okkar í verkefnastjórnun vinnur hjá Danmarks Radio, í framtíðarpælingum og tækniþróun. Mér líst vel á hann og er að spá í að notfæra mér hans sambönd og prófa núverandi hugmyndir mínar um huxanlegt lokaverkefni.

Þær eru mjög ómótaðar núna en pælingin er að skoða hvaða breytingar verða með alvöru breiðbandi, gagnvirku sjónvarpi og öllum þeim breytingum sem eru væntanlegar. Mig langar að prófa þetta í fjögurra vikna verkefni í vor og ef þarna er nægilegt kjöt á beinum vinn ég í því að leggja línur fyrir lokaverkefnið.

Og að lokum...

Ég mun aldrei viðurkenna það opinberlega (og síst af öllu á vefnum) en í þessum rituðum orðum er ég með tvær litlar bleikar bangsaklemmur í hárinu. Á leiðinni heim úr skólanum fór húfan algerlega með hárgreiðsluna og toppurinn var að gera mig geðveikan...

Ég geri fastlega ráð fyrir að gleyma þeim og finna þær í sturtunni í fyrramálið eftir að hafa sofið með þær.


< Fyrri færsla:
Skrollbarinn rokkar!
Næsta færsla: >
Tapast hefur stórhríð
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry