Tapast hefur stórhríð

Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi var varað við snjóstormi miklum sem æddi yfir landið með ógn og eyðileggingu. Á Bornholm væri veðrið skollið á, kominn skafrenningur og búið að kalla út skriðdrekana. Danir virðast ekki vera mikið í snjóbílaeign, en kalla út herinn með brynvarða beltavagna til að sinna sjúkraflutningum og ámóta þegar veður versnar.

Veðrið var meira að segja svo slæmt á Borgundarhólmi að þegar átti að skipta yfir á fréttamann á staðnum í "ég er staddur við Litlu Kaffistofuna og hér er snælduvitlaust veður og enginn ætti að fara út úr húsi" innslag, stræjkaði gervihnötturinn og fyrst stóð vesalings fréttamaðurinn hljóðlaus í kófinu og hvarf svo alveg. (Hvarf þó ekki í hríðina, heldur rofnaði sambandið.)

Ég gladdist mjög og hlakkaði til að fá að takast á við veðrið á leið í skólann. Dró fram utanyfirbuxur og skrúfaði hettuna á dúnúlpuna og þegar ég lagðist til svefns fann ég víkingablóðið ólga í æðunum af einskærri tilhlökkun.

Þegar ég svo vaknaði í morgun voru það gríðarleg vonbrigði að það var ekki einu sinni snjóföl úti.

Í þessum rituðum orðum (um kl. 17 að staðartíma) bólar enn ekkert á stórhríðinni hér á Amager, en samkvæmt vefmiðlum er alvöru vetrarveður allsstaðar annarsstaðar í landinu.

Mikil vonbrigði.


< Fyrri færsla:
Önnin framundan
Næsta færsla: >
Vommbrigði
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry