Skæp er ekki bara hæp

Það fer að verða fastur liður að hitta systkini mín í verslanamiðstöðinni Fisketorvet. Fyrir viku mælti ég mér mót við Margréti þar og í dag hitti ég Sigmar. Hann er í helgarferð í stórborginni að hitta vinafólk sitt frá Íslandi.

Ég notaði tækifærið til að kaupa mér höfuðtól (heddsett) með hljóðnema til að nota í Skype símtölum. Fyrir valinu varð billeg týpa með boga aftur fyrir hnakkann. (Gellan fylgdi því miður ekki með.)

Þegar heim var komið og ég mátaði græjuna leist mér ekki á blikuna og grunaði að ég hefði keypt ódýrasta köttinn í sekknum. Höfuðstærðin og gleraugun voru ekki alveg að góðkenna gripinn og ég sá fram á heldur aðklemmd símtöl.

Með vöðvaafli og vasahníf tókst mér hins vegar að endurhanna græjuna þannig að hún passar miklu betur og er nú til í tuskið.

Ég skráði mig í Skype fyrir nokkrum vikum (eftir nokkurn jafningjaþrýsting) og prófaði fyrst að nota innbygða hljóðnemann á tölvunni. Það gekk mjög vel og ekki annað að sjá en slagorðið "Free Internet telephony that just works" eigi við rök að styðjast, þannig að ég skellti mér á áðurnefnd höfuðtól til þess að þurfa ekki að bogra yfir tölvunni til að í mér heyrist.

Það eru alveg merkilega góð hljóðgæði í kerfinu, enda veit ég til þess að fyrirtæki eru farin að nota þetta til að hringja á milli skrifstofa í ólíkum löndum.

Fyrir þá sem hafa áhuga á spjöllum er notendanafnið mitt hjá Skype thorarinn.com, en það er líka hægt að fletta mér upp í símaskránni þeirra þar sem ég er skráður fullu nafni.

Hins vegar keyri ég Skype ekki upp sjálfkrafa, bæði til að fækka þeim forritum sem tölvan er að keyra og líka vegna þess að ég er oft með tölvuna í skólanum og þá hef ég ekki færi á að taka á móti samtölum. Þess í stað er ráðlegast að hnippa í mig á MSN og þá get ég ræst Skype ef ég er ekki upptekinn við annað. Á MSN er ég thorarinn_com(hjá)hotmail(punktur)com

Heyrumst.


< Fyrri færsla:
Laumufarþegi á fredagsbarnum
Næsta færsla: >
Through his wife\'s forehead
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry