Læstur inni í vélmenni í íslenskum smábæ

(Og hvað eru mörg í í því?) Undanfarnir dagar hafa verið dagar lítilla afkasta (mér finnst ég hafa skrifað þetta einhvern tíman áður...) en þó sitthvað í frásögur færandi ef grannt er skoðað. Á laugardagskvöldið tók ég metróinn upp að kóngsins nýja torgi til að rölta þaðan yfir í Nyhavn til að fylgjast með Hönnu Birnu troða upp þar á krá. Á leiðinni upplifði ég það að metróinn fraus, endurræsti sig síðan en sat samt pikkfastur.

Það er merkilegt hvernig kollurinn á manni virkar. Ég á ekki í neinum vandræðum með að ferðast með neðanjarðarlestum, engin innilokunarkennd og hef fyllsta traust á lestarstjóralausum lestunum. Þegar við vorum að leggja í hann eftir stopp í Christianshavn lokuðust ytri dyrnar eins og lög gera ráð fyrir (þ.e. teinarnir eru aðskildir frá sjálfri lestarstöðinni með dyróttum glervegg). Samkvæmt forritinu ætti metróinn þá að loka sínum dyrum og keyra af stað. Þess í stað slokknuðu öll ljós og allt fraus.

Farþegar litu hver á annan en reyndu að láta ekki á neinu bera. Ljósin kviknuðu líka fljótlega aftur, dyrnar lokuðust og á ljósaskiltum í loftinu sem venjulega gefa upplýsingar um næstu stöð mátti fylgjast með gangi mála í endurræsingu.

Þá stóð allt fast aftur.

Þarna vorum við stödd í kvið dýrsins. Vélmennis sem greinilega var ekki að standa sig í stykkinu og engin leið að komast út.

Skyndilega helltist yfir mann óþægindatilfinning yfir þessu bjargarleysi. Fyrir nokkrum misserum hefði þetta spilað mjög illa með kvíðaröskuninni minni, en ég náði að sannfæra sjálfan mig um að allt væri í góðum gír. Samt var þetta töluvert óþægilegt og merkilegt að upplifa hvað hægt er að upplifa sömu aðstæður (sitjandi í lest) á gerólíkan hátt eftir því hvernig ytri aðstæður eru.

Eftir að hafa setið og beðið í nokkrar mínútur tók sig lox einn farþeganna til og kallaði upp stjórnstöð í þar til gerðri græju (sem ég var búinn að steingleyma að væri í vagninum) og við rúlluðum fljótlega af stað.

Þegar á áfangastað var komið fékk ég enn eina staðfestingu þess að það að Kaupmannahöfn sé erlend stórborg er bara þjóðsaga. Í raun er þetta lítið íslenskt sveitaþorp!

Á næsta borði sá ég kunnuglegt andlit og komst fljótlega að því að handan við hnakka sem ég ekki bar kennsl á var annað kunnuglegt andlit. Þarna voru sum sé tveir fyrrum nemendur mínir úr Kvennó mættar til að fylgjast með sama atriði og ég. Þær þekktu vinkonu HB (Hildi ef mig misminnir ekki) og voru þarna ásamt fleiri íslíngum að hygge sig aðeins. Við skiptumst á sögum af dönsku háskólalífi (báðar í DTU) og öðru því sem í frásögur þótti færandi.

Öðruvísi bjór helgarinnar var tekinn þarna á kránni "17", því miður man ég ekki nafnið á honum, en hann var frá Guinness. Svipað froðuverk og í alvöru Guinness, en ekki nærri því jafn rammur/bitur. Prýðisgóður.


< Fyrri færsla:
Through his wife\'s forehead
Næsta færsla: >
Elli á leið í bæinn
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry