Vikan í löngu máli

Ég hef verið önnum kafinn við annað en að skrifa í dagbókina þessa vikuna (reyndar fæst af því sérlega í frásögur færandi), en ætla að renna á hundavaði yfir vikuna það sem af er. Ef ég þekki mig rétt verður það í löngu máli og útúrsnúnu.

Á þriðjudeginum áttu plön Ella enn eftir að breytast þegar ég fór út úr húsi. Þegar ég var kominn í búss upp á Hovedbanegård hringdi hann og leist ekkert á færðina sem hélt áfram að versna. (Hann á sumardekkjum á 50 km. hraða á hraðbrautinni). Þess vegna ákvað hann að fara fyrst á Kastrup til að skila bílnum og taka lest þaðan inn í borgina. Það var eflaust það eina rétta í stöðunni, en þýddi að ég þurfti að slóra í klukkutíma á höfuðbananum.

Það var ekki nóg með að það snjóaði töluvert (og þar á meðal inn í bygginguna) heldur voru vandræði með sporskiptingar sem urðu til þess að allar áætlanir virtust meira eða minna úr skorðum og léttur pirringur í mannskapnum sem var að reyna að komast heim til sín.

Að lokum skilaði drengurinn sér þó og við röltum í hríðarbyl á hótelið hans og fengum okkur einn öllara á hótelbarnum eftir innritun. Veðrið bauð ekki beinlínis upp á að rölta um miðbæinn í leit að spennandi matsölustöðum þannig að við strunsuðum beint á vel þekkt lókal - sportsbarinn á Hovedbanen sem við bræður og feðgar höfum nú allir heimsótt til að fá þar bita, bjór og bolta.

Um ellefuleytið kvöddumst við með virktum og ég tók vagn heim á Amager. Þar bar svo við að vagninn var gersamlega troðfullur, blessunarlega var ég þriðji síðastur til að komast inn. Þeir sem ekki tókst að troða sér inn voru einfaldlega skildir eftir og á einni af fyrstu stoppunum var brunað framhjá konu sem beið þar í mesta sakleysi.

Hvenær var strætisvagn síðast útúrfullur klukkan 11 að kvöldi í Reykjavík á þriðjudegi?

Þetta er auðvitað eins og með annað í almenningssamgöngum spurning um það hvort kemur á undan hænan eða eggið. Hér nota menn almenningssamgöngur vegna þær virka og þær virka vegna þess hversu margir nota þær.

Hér er upplagt að skella fram einum aulabrandara sem ég var að lesa nýlega:

Hænan og eggið lágu nakin uppi í rúmi og reyktu sitthvora sígarettuna þegar hænan sagði stundarhátt: "Nú vitum við allavegana svarið við þeirri spurningu..."

Miðvikudagur

Miðvikudagurinn var maraþondagur hjá mér. Skóladagur frá klukkan 9 um morguninn til kl. 21 um kvöldið. Fyrst verkefnastjórnun og svo grafísk hönnun þar sem ég skilaði af mér verkefni 4. Þar áttum við að búa til "orðmyndir" úr 4 fyrirfram gefnum orðum og velja eitt sjálf:

verkefni 4 í grafískri hönnun

Genert þýðir "feiminn", annað held ég að allir geti ráðið í með grunnskóladönsku að vopni. Reyndar man ég ekki hversu mikið við fjölluðum um Elvis í dönskutímum í Grunnskóla Egilsstaða, en það var þeim mun meira af Kim Larsen og Shubidua.

Í ljós kom að einhverjir samnemenda minna sáu ljósa hárið í genert sem horslummu og einn hélt að þetta hefði átt að vera smokkur. Ég get skilið þetta með horið, en...

Annars fékk þetta jákvæða dóma hjá kennaranum, nema reyndar ballettinn sem þótti ekki sérlega þokkafullur. Sjálfur er ég mjög ánægður með nýja rokk-lógóið mitt, unnið upp úr leturgerðinni Skull Capz og ljósmyndum af nautgripahornum.

Um morguninn var hríðarkóf og ég fékk lox tækifæri til að stika í hlífðarbuxunum í skólann. Virkilega heimilislegt.

Þrautseigjuverðlaun dagsins fær náunginn sem um morguninn var að brasa við að koma skellinöðrunni sinni í gang í Hollænderdybet. Þegar ég fór sömu leið heim 12 tímum síðar var hann enn á sama stað að reyna að starta hjólinu!

Fimmtudagur

Aftur frekar langur dagur þar sem við hittumst um 10-leytið til að vinna í verkefninu okkar í Forundersøgelse og eftir tveggja tíma hlé vegna fyrirlestra í faginu héldum við áfram og unnum fram undir kvöldmatarleytið.

Skemmtileg tilbreyting að sýna smá dugnað.

Föstudagur

Undanfarna daga hefur verið frábært veður hér í Köben, hitinn um frostmark, stillt og glampandi sólskin. Fyrir vikið hefur sólbráðin náð að hreinsa að mestu gangstéttir, en slabb er í algeru lágmarki.

Eftir að hafa kúrt aðeins frameftir fór ég því í hressingargöngu í sólinni áður en ég lagðist í tölvupóstskriftir og sleppti fram af mér beislinu á Amazon.co.uk og keypti 4 hönnunarbækur.

Auðvitað hef ég ekkert efni á því, en nota það sem afsökun að ég hef ekki keypt dönsku bækurnar sem gefnar eru upp sem lesefni í áfanganum. Þær hef ég haft í láni, en mér sýnist þær ekki vera það merkilegar að ég skelli mér á að kaupa þær. Þess í stað lét ég meðmælin á Amazon stýra för.

Á föstudagsbarnum var óvenjulegi bjór kvöldsins Brooklyn Black Chocolate Stout. Hörkubjór, þótt ég sé ekki mikill stout-maður. Ekki bjór sem maður þambar, enda 8,25% en felur það mjög vel með bragðinu.

Eftir hann var þörf á að taka bragðlaukana í fráhvarfsmeðferð og sötra einn Victoria Bitter áður en maður fór aftur yfir í danska kranabjórinn.

Laugardagur

Afslappaður það sem af er. Fór í gönguferð yfir til Christianshavn í sól en kaldri gjólu. Þar ætlaði ég að taka nokkrar ljósmyndir, en komst að því að rafhlaðan í myndavélinni er búin að gefa upp öndina og að hin rafhlaðan hafði orðið eftir heima.

Nú er spurningin hvort maður skjótist út í búð og kaupi eitthvað gott á pönnuna enda hef ég ekki borðað heitan mat í tvo sólarhringa (kvöldmatur föstudagsins var eingöngu í fljótandi formi þar til ég kom heim um miðnættið og fékk mér samloku).

Ekki spurning, skelli mér í það.


< Fyrri færsla:
Elli á leið í bæinn
Næsta færsla: >
Plöggedí plögg
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry