Lífsmark með slána

Eftir dugnaðarrispu síðustu viku var ég að vonast til að starfsþrek yrði blússandi í þessari. Hins vegar kom í ljós að um leið og pískurinn hvarf sjónum varð freistandi að slaka heldur mikið á.

Það er helst fréttnæmt af atburðum undanfarinna daga að Sigmar bróðir millilenti hér á leið heim í páskafrí og gisti á svarta leðrinu.

Hann hafði falast eftir gistingu nokkrum dögum áður, síðan hætt við, en hringdi svo á mánudaginn rétt áður en hann stökk upp í lest. Ég kynnti hann auðvitað fyrir dásemdum Amagerskra skyndibita (eins og aðra fjölskyldumeðlimi sem gefið hafa færi á slíku) og við tókum síðan rólegt kvöld með bjórsötri og horfðum á Collateral með Cruise. Fín.

Sigmar bar sig ágætlega eftir nótt á sófanum, sérstaklega samanborið við hinn kostinn sem hefði verið að taka lest frá Álaborg fyrir klukkan 6 um morguninn. Það gekk vel að koma honum í bússinn, þótt ítalskir vinir mínir hafi valdið ákveðnum vonbrigðum að vera ekki búnir að opna bakaríið sitt.

Eftir að hafa losnað við drenginn tókst mér lox að taka smá skorpu í forritun fyrir thorarinn.com og það gekk í raun vonum framar, margar margar línur af kóða eru farnar að nálgast það að virka - aldrei að vita nema ný útgáfa komist í gagnið fyrir ammælið mitt.

Ég er samt mjög meðvitaður um takmarkanir mínar sem forritara sem felast einna helst í samblandi af því að vita of mikið og of lítið.

Ég hef enga reynslu af formlegu hönnunarferli forritunar (fyrir utan nasaþef sem við fengum í PHP kúrsinum) - þannig að ég er að finna upp hjólið í hvert sinn. Í stað þess að forrita hlutbundið er ég t.d. að búa til ógurlega súpu af miðlægum fúnksjónum sem ég svo kalla á eftir þörfum. Það er ekki alslæmt, en langt frá því að vera optimal.

Á hinn bóginn veit ég of mikið um sumt. Ég er t.d. alltaf að grúska í mögulegum öryggisgöllum og að reyna að sjá fyrir hugsanleg vandamál (eitthvað í líkingu við það sem spekingarnir kalla contingency design).

Í stað þess að vaða bara áfram, fá draslið til að virka og huxa svo um smáatriðin seinna, eyði ég heilmiklum tíma í að reyna að sjá fyrir vandamál og/eða stoppa upp í göt sem ólíklegt er að nokkur eigi eftir að falla í.

Til dæmis áttaði ég mig á því að í kommentakerfinu sem ég var að púsla saman var greinilegt ef notandi bað um smáköku að lesa hvaða notendanúmeri hann hefði fengið úthlutað. Þar sem smákakan er bara textaskrá á harða disknum hefði verið lítið mál að fikta í henni og geta þannig kallað fram netföng allra skráðra notenda. Sem er ekki gott.

Eftir smá vangaveltur ákvað ég að nota smá stærðfræði til að fela raunverulega númerið, þannig er notandi með smákökunúmerið 2009-1292-3391 í raun notandi nr. 1.

Þetta er auðvitað ekki 100% öruggt, en til þess að brjóta kerfið þarf núna að finna út hvernig á að stærðfræða þessar þrjár tölur saman, og það held ég að sé hægara sagt en gert. (A.m.k. krefst það einbeitts brotavilja og allnokkurrar þolinmæði).

Reyndar er kaldhæðnislegt að með þessari færslu hef ég aukið líkurnar á því að einhver rjúfi kóðann úr því að vera stjarnfræðilega litlar í það að vera rétt rúmlega stjarnfræðilega litlar.

Veit ekki hvort stjarn- og stærðfræðingar eru sáttir við þessa notkun á líkindafræði, en mér er nokk sama. Við efnafræðingar skiljum þetta.


< Fyrri færsla:
Fussað yfir moggamálfræði
Næsta færsla: >
Um aðdáendabréf og skort þar á
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry