Tapast hefur klukkutími

Eins og ég var nú ánægður með það þegar mér græddist klukkutími í haust, græt ég það nú þegar baunar hafa skipt yfir í sumartíma og klukkutími hvarf. Þannig vaknaði ég rétt rúmlega níu í morgun, en eftir að hafa risið upp við dogg og stillt klukkuna var hún skyndilega orðin langt gengin í ellefu!

Við þessum ósköpum brást ég með því að gera nákvæmlega ekki neitt fram að hádegi (fyrir utan sturtu og morgunmat sem rann saman við hádegismat).

Ekki svo að skilja að ég hefði notað þennan klukkutíma í neitt gábbulegt. Honum hefði örugglega bara verið sólundað í einhverja vitleysuna. En samt...

Kannski var þetta akkúrat dugnaðarklukkutíminn sem var ætlað að hrífa frændur sína letiklukkutímana með sér og hvetja til dáða? Kannski var þetta klukkutíminn sem skilja átti milli feigs og ófeigs (dugnaðarlega séð)?

Kannski ekki.

Nú er þetta blessaða páskafrí bráðum búið. Verkefni dagsins eru skattskýrslan [hér heyrist hljóð í kuldahrolli sem hríslast eftir hryggjarsúlu], uppkast að glósum fyrir fyrirlestur sem ég á að halda á fimmtudaginn og funda um á morgun, úttekt á vefsvæðum fyrir grafíska hönnun og sitthvað smálegt sem ég er að gleyma og mun áreiðanlega fresta til morguns þegar það rifjast upp fyrir mér.

Úti er prýðis gluggaveður, glampandi sól en hitinn ekki nema um 8 gráður (skv. veðurupplýsingum á vefnum).

Gleðilega páska.


< Fyrri færsla:
Forritað sem aldrei fyrr
Næsta færsla: >
Anderseneitrun og leyndarmál á póstkorti
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry