Anderseneitrun og leyndarmál á póstkorti

Á laugardaginn eigum við afmæli, ég og H.C. Andersen. Hann er að vísu látinn blessaður, enda verða 200 ár liðin frá fæðingu hans næsta laugardag. Ég hef það hins vegar ágætt, er að vísu soldið dasaður eftir langan skóladag, en það er ekkert nýtt. Hér eru danskir að sjálfsögðu létt að ganga af göflunum yfir þessu öllu saman (afmæli Hansa, ekki mínu) og í sjónvarpsfréttunum áðan var rætt um hvaða áhrif ofmettun af H.C. Andersen hefði í för með sér.

Menn hafa af því áhyggjur að skólarnir verði orðnir svo útkeyrðir að börn og kennarar muni ekki geta hugsað til þjóðskáldsins í mörg ár.

Ég á svoooooooooo langan lista af bókamerkjum með vefsíðum sem mér finnst ástæða til að ræða hér og vekja athygli á. Vantar bara að finna mér tíma í að saxa á listanum.

Rétt í þessu rakst ég á vef sem fékk að troða sér fram fyrir í röðinni og verður hér með vísað á án frekari málalenginga.

PostSecret byggir á einfaldri hugmynd: Þú skrifar leyndarmál á póstkort og sendir. Kortið er skannað inn og opinberað heiminum á vefsíðu.

Sumt fer eflaust fyrir brjóstið á sumum (en sumum er líka nær að vera að hnýsast á vefjum sem eru ekki við sumra hæfi). Mér fannst þetta heilt yfir heillandi. Leyndarmál geta greinilega bæði verið stór og smá.

Ég efast um að ég eigi nein krassandi leyndarmál til að skrifa á póstkort. Og þó...


< Fyrri færsla:
Tapast hefur klukkutími
Næsta færsla: >
Hvað gerðist?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry