Lífs að mestu

Þá eru ekki nema rétt tvær vikur eftir af önninni og léttur streitubragur að færast yfir skólann. Ég er enn sem komið er nokkuð bjartsýnn á að huxanlega takist að skila þeim þremur verkefnum sem ég á að skila eftir tvær vikur án þess að til teljandi taugaáfalls eða annarra geðtruflana komi. Fyrir því eru þó engar tryggingar.

Nú reynir á verkefnastjórnunarhæfileikana til að gera raunhæfar tímaáætlanir og standa við þær...

Annars var fyrirlestur Kelly Goto í fyrradag nokkuð góður. Hún fór yfir reynslu sína og síns fyrirtækis af vefverkefnum sem hún hefur skrifað bók um. Þar var ýmislegt sem ég get vel ímyndað mér að nota í framtíðarvefverkefnum - og margt sem hefði verið gott að kunna 1999.

Mér fannst skondið að hún nefndi að hún vann fyrir WebVan.com á þeim tíma. Ein af þeim skýrslum sem ég skrifaði á sínum tíma var fyrir ónefnda litla heildverslun sem hafði uppi stór áform um að meika það big-time á netverslun. Þá langaði að stofna matvöruverslun á vefnum og ég fékk það verkefni að skoða hvernig það gæti litið út. Fyrirmyndin úti í hinum stóra heimi var einmitt WebVan, sem ekki svo löngu síðar fór á hausinn.

Ónefnda heildverslunin hafði það helst sér til ágætis að áður en forstjórinn kom til okkar hafði hann látið hanna lógó fyrir hina væntanlegu vefverslun. Það lógó fullyrti hann við okkur að væri sérlega hannað fyrir vef, en þótt við segðum það ekki beint við hann var greinilegt að annað hvort hafði hann dílað við óhæfan grafíker eða hæfan grafíker sem hafði ákveðið að ljúga að honum. Ég held það sé ekki hægt að hanna mikið verri lógó fyrir skjábirtingu heldur en lógó með gullgradíentum.

Meðal þess sem Kelly nefndi og ég sá kosti við var meðal annars:

  • Spurningaskema sem nýir viðskiptavinir eru látnir fylla út um hugmyndir sínar (ef viðskiptavinurinn hefur ekki tíma til að svara skemanu er það yfirleitt vísbending um að hann hefur ekki tíma til að sinna verkefninu yfirleitt).
  • Á hönnunarstiginu búa þau til það sem þau kalla Brand boards. Þetta eru eins konar stemmningsklippimyndir, ekki tillaga að útliti á vefinn, en gefur hugmynd um hvers konar yfirbragð gæti verið á vefnum. Aðalkosturinn að þau eru endurnýtanleg. Dæmið sem ég linka á var unnið fyrir fyrirtæki sem sagðist vilja vera þjóðlegt amerískt red-white-and-blue. Þegar þau sáu þetta mynd áttuðu þau sig á því að svo væri ekki.
  • Hún lagði líka mikla áherslu á efnisöflun (content) og að það væri hlutur sem allt of oft gleymdist.

Allt saman góðar pælingar. Hver veit nema ég kaupi bókina við tækifæri...

Annars er ég kominn með prófverkefnið í grafískri hönnun, að hanna nýjan vef handa þessa gúbba. Ég held að það verði krefjandi verkefni, en kannski ekki sérlega spennandi. Vefur fyrir gamla listafauska finnst mér einhvern vegin ekki sérlega sexí.

En það er kannski bara ég...


< Fyrri færsla:
Ah, verkefnakynningarkaósin...
Næsta færsla: >
Tapast hefur: tungumálakunnátta
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry