Still standing...

Þá er klukkan að mjakast í miðnætti. Vöðvabólguhnúturinn milli herðarblaðanna að færast yfir á hættustig, þjófavarnarkerfið búið að fara fjórum sinnum í gang það sem af er kvöldi og prentarar hússins skiptast á um að gefa upp öndina. Lauslega ágiskað eru um hundrað manns dreifðir um bygginguna að strita við að klára það sem klárað verður.

Ég er búinn að prenta út skilin fyrir tvo áfanga og við sitjum hópurinn að fínpússa skýrsluna fyrir þann þriðja. Mér sýnist afköstin í yfirlestrinum vera um 3 bls. á klukkustund, þannig að við erum að verða komin á síðu 25 (af 30).

Minns er ekki til mikils gagns í danskri réttritun og læt mér nægja að rissa upp forsíðu og svara spurningum um hvað ég var að meina þegar ég skrifaði...

Það hefur nefnilega sýnt sig að ég hef skrifað glettilega stóran hluta af skýrslunni, sem aftur þýðir að okkar sameiginlega sýn er að stórum hluta mín túlkun á því sem við höfum talað um.

Enn sem komið er heldur maður sér gangandi á gosi og súkkulaði, en ég veit ekki hvort ég endist mikið meira en í 1-2 tíma. Það kemur í ljós...


< Fyrri færsla:
Stílblað dauðans
Næsta færsla: >
Og þá held ég heim
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry