Borðtennisafrek

Einu gleymdi ég í yfirlitinu yfir atburði annarlokanna. Á aðfaranótt laugardagsins lentum við Hjörtur í tvíliðaleik á móti tveimur baunum í borðtennis. Þetta var í annað skiptið sem ég gríp í borðtennisspaða síðan um fermingu (hitt var líka á fredagsbar). Ég var heldur ryðgaður í reglunum, hafði t.d. steingleymt þessu með að gefnar séu upp fimm uppgjafir í trekk, en tókst að fela það.

Við Hjörtur vorum mjög sammála um að vera illa við annan mótpartner okkar, sem var heldur góður með sig og slengdi meðal annars á okkur reglu um að við yrðum alltaf að skiptast á um að slá boltann. Þannig misstum við helling af stigum, enda báðir það praktískir að eðlisfari að okkur fannst henta best að verja hvor sinn helming. Að auki var hann mjög smámunasamur í öllum reglutúlkunum sem kom þeim félögum til góða.

Það var okkur til stuðnings að meðspilari baunans óþolandi var það sem heitir á fagmáli pöddufullur og við gerðum í því að reyna að spila sem mest upp á hann þegar þetta varð ljóst, enda næstum tryggt að þar með væri boltinn úr leik.

Fínhreyfingar okkar og leikþjálfun var reyndar kannski ekki upp á sem allra flesta fiska, þannig að það tókst ekki alltaf að stíla upp á að allar sendingar enduðu hjá þeim fulla og leikurinn dróst því á langinn.

Að lokum fór svo að við unnum 25-23 (eða eitthvað því um líkt).

Danirnir vildu í upphafi spila upp á umgang af bjór og við féllumst á það. Án þess að ræða það neitt frekar létum við að sigri loknum samt duga að þakka þeim bara fyrir leikinn.

Mér finnst það mjög hæfandi diss, að vinna þá og vera ekki að ómaka sig við að hafa af þeim verðlaunin.

Áfram Ísland.


< Fyrri færsla:
Leitið og þér munuð finna... eða hvað?
Næsta færsla: >
Hálfu höfðinu léttari
 


Athugasemdir (3)

1.

Hjörtur reit 01. maí 2005:

Össs hvað það var ljúft að vinna þennan vitleysing. Spilaði svo við hann aftur með 2 stelpum af línunni minni...og hann var jafnvel strangari við þær á reglunum en hann var við okkur!! Endaði með því að honum var "hliðrað" burt og bara hundsaður...

en já - mér datt ekki í hug að rukka þá um bjórinn...bara svipurinn á kvikindinu var nóg :)

2.

Þórarinn.com reit 02. maí 2005:

Hann var greinilega kominn af nýlendukúgurum í beinan karllegg, helvítið á honum.

3.

Jón Heiðar reit 04. maí 2005:

Gott að vita að bauninn fær að kenna á því fyrir alla nýlendukúgunina.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry