Hálfu höfðinu léttari

Dugnaður dagsins varð ekki með þeim ágætum sem að var stefnt. Það kann að hljóma undarlega, en ég kenni eldingaveðri að stórum hluta um hvernig áætlanir riðluðust. Þó tókst mér að ná aðalmarkmiði dagsins, að komast í klippingu!

Þvílíkur léttir sem það reyndist. Mér líður eins og höfuðið á mér sé að minnsta kosti hálfu kílói léttara. Eins og sést af meðfylgjandi mynd er þetta allt annað og léttara líf:

Haddur minn

Ég byrjaði daginn á því að sofa út og lesa morgunfréttirnar í rólegheitum. Síðan skutlaði ég í þvott buxum sem ég í gærkvöldi hafði barist við að verka smurolíubletti úr. Meðan þær voru að taka sína snúninga í myntþvottahúsinu rölti ég um nágrennið í góða veðrinu.

Eftir að hafa rekið nefið inn í Amager Center ætlaði ég að rölta til baka og sjá hvort ég gæti ekki droppað inn á klipparastofu í leiðinni. Þá hafði hins vegar þykknað heldur í lofti og 20 metrum síðar brast á með þrumum, eldingum og úrhelli.

Ég er ekki farinn að venjast eldingaveðrum (hálfnafni minn þrumuguðinn myndi eflaust skammast sín fyrir mig) og það að hafa eldingarnar beint fyrir ofan hausinn á sér með tilheyrandi hávaða og djöfulgangi er ekkert spes. Að minnsta kosti ein leiftraði beint fyrir ofan Amager þannig að nágrennið birti merkjanlega upp (um miðjan dag) og ég horfði svo á aðra puðra sér niður nokkra kílómetra frá, trúlegast í Christianshavn.

Að vísu segir skynsemin að maður sé þokkalega seif í stórborg innan um há hús með eldingavörum og götulýsinguna hangandi í víravirki milli húsanna, en það er samt óþægilegt að vita af eldingunum rétt hjá og merkja kraftinn í þeim í þrumudrununum, sérstaklega ef maður er bara að þvælast í erindisleysu.

Þessu fylgdi auðvitað rigning, sem fyrst í stað var ekkert að angra mig, enda í ágætum jakka og með derhúfu. Eftir nokkrar mínútur var þetta hins vegar orðið að algeru skýfalli svo ég hef sjaldan séð annað eins. Þá leitaði ég skjóls undir sólskýli herrafataverslunar og kíkti svo inn í hana til að bíða af mér veðrið.

Það varð því ekkert af klippistoppi í það sinnið, heldur sótti ég bara mínar brækur og forðaði mér heim.

Eftir aftur hafði stytt upp rúmum klukkutíma síðar fór ég svo í göngutúr og fann viljugan klippara. Hann stytti mig um einhverja 2 sentímetra og tók hressilega skorpu með þynningarskærunum.

Reyndar var hann ekkert mikið að hafa fyrir því að greiða í gegnum hárið að því loknu, þannig að ég sá mig tilneyddan að fara í sturtu áður en ég gengi í næsta mál á dagskrá, að leita mér að herðanuddi.

Ég held þetta sé í fyrsta skipti á ævinni sem ég tek hárbursta með mér í sturtu, og veitti ekki af. Eftir að hafa rennt honum nokkrum sinnum í gegnum lubbann á mér var ég kominn með hráefni í sæmilega hárkollu að ótöldu því sem hárþvotturinn síðar losaði um.

Þegar hér var komið sögu var komið vel fram á dag og ég ákvað að láta nuddið bíða aðeins, stefni á að tækkla það á morgun. Núna er málið að skjótast í stórmarkað og kaupa í kvöldmatinn, kannski taka eins og 50 bjór gosílát, sem hafa safnast upp hér á herberginu, með sér.

Það er kannski rétt að taka fram að ég var að bulla hér í upphafi, myndin er tekin fyrir klippingu, ekki eftir.

Uppfært: Sumir urðu meira áþreifanlega varir við þrumuveðrið en aðrir.


< Fyrri færsla:
Borðtennisafrek
Næsta færsla: >
Þú líka, sonur minn Google!
 


Athugasemdir (2)

1.

Mardí reit 02. maí 2005:

I was just going to say it! Var að spá hversu hratt hárið á þér vex...

2.

Jón Heiðar reit 04. maí 2005:

Ég og Hallveig fórum alltaf út að ganga þegar það voru þrumur og eldingar í London. Ein úti á götunum að kvöldi til eltandi eldingar og þrumur eins og krakkakjánar á Gamlárskvöldi.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry