Þú líka, sonur minn Google!

Í letikasti morgunsins leitaði ég meðal annars að gömlum félaga með hjálp Google og datt svo af rælni í hug að sjá hvar ég stæði í leitarniðurstöðunum. Það er skemmst frá því að segja að thorarinn.com virðist næstum gufaður upp ef leitað er að "Þórarinn", "Þórarinn Stefánsson" eða samsvarandi með enskum rithætti!!! Ó mig auman...

Eins og allir vita þá er það næstum eins og að þurrkast út úr tilverunni í vefheimum ef Google virðir mann ekki viðlits.

Hingað til hef ég verið nokkuð öruggur með top 5 sæti í öllum leitum að nafninu mínu, en eitthvað virðist Google ósáttur við nýja vefinn minn.

MSN og Yahoo! finna mig hins vegar án teljandi vandkvæða.

Google finnur alls konar mögulega og ómögulega staði þar sem nafnið mitt kemur fyrir, en vefurinn minn birtist í mesta lagi sem "Supplemental result".

Ég veit ekki hvað veldur, en þarf greinilega að rifja upp ábendingar um sýnileika í leitarvélum. Ég á bágt með að trúa því að Google sé að setja mig í skammarkrókinn fyrir að nota CSS til að fela nafnið á stöku stað af fagurfræðilegum orsökum. Það gæti þó verið.

Þetta þarfnast rannsóknar... (ábendingar vel þegnar).

En alltaf finnst mér jafn merkilegt þegar þessi síða dúkkar upp efst í leit að Þórarinn. Google er alldeilis vel að sér í íslenskum gælunöfnum (og hefur verið lengi).

Uppfært: Þorsteinn (gamli félaginn sem ég var að leita að) er fundinn með aðstoð Google og samskipti komin á eftir nokkurra ára hlé.

Uppfært: Ég er fíbl.


< Fyrri færsla:
Hálfu höfðinu léttari
Næsta færsla: >
Vikurnar framundan
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry