Föðurdiss, fælled(s)park og fjölstrengjun

Þegar pabbi hringdi frá Íslandi og byrjaði samtalið á spurningunni "Er nokkuð verið að dissa mig?" vissi ég ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Í ljós kom að frændur mínir í föðurættina eru flestallir meira eða minna gengnir af göflunum og það að við bræður skulum ekki taka þátt í biluninni eru föðurbræður mínir að reyna að túlka þannig að við séum að dissa gamla manninn.

Fyrir rúmu ári gengu pabbi og fjórir bræður hans 90km Vasagönguna, eins og frægt er. Nú eru þeir (flestallir) að skrá sig í gönguna 2006 og að auki fimm af sonum þeirra (sem eru þá þremenningar við mig ef mér skjöplast ekki í ættfræðihugtökunum).

Ég er hræddur um að þeir þremenningar vorir geri sér ekki alveg grein fyrir því út í hvað þeir eru að fara (ekki allir a.m.k.). Ekki svo að skilja að ég sé mikill gönguskíðagarpur, en ég hef á tilfinningunni að ég hafi gengið lengra á skíðum en þeir fimm til samans...

Við bræður látum okkur hins vegar nægja að koma okkur í form fyrir 10km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar.

Huxanlega skrepp ég yfir sundið og fylgist með pabba og frændgarðinum spreyta sig næsta vor, en það verður bara af hliðarlínunni.

Í gær var hins vegar blásið til fótbolta í Fælledparken af TótiL og félögum og mér var boðið að taka þátt. Ég hjólaði uppeftir (þ.e. uppeftir séð á korti, þetta er auðvitað marflatt eins og allt hér um slóðir) og þegar ég sá sjúkrabíl lagt við fótboltavellina vissi ég að ég væri á réttum slóðum.

Þetta reyndist prýðissprikl, þótt þrívíddin í vellinum væri kannski í það mesta. Á stórum flákum voru allt að 20cm holur - eiginlega hálfgerð rofabörð og það var því mesta mildi að enginn skyldi slasa sig, enda var lipurð kannski ekki það sem helst einkenndi leikinn.

Ég held ég hafi staðið mig þokkalega, átti nokkrar lykilsendingar, tæklingar og hreinsanir, potaði inn mörkum hér og þar (meðal annars í eigið mark) og sýndi svo tilþrif í markvörslu þegar mæðin tók yfirhöndina.

Við böðluðumst í næstum einn og hálfan tíma og ekki laust við að maður væri orðinn ansi þreyttur undir lokin.

Þaðan hjólaði ég svo heim til að fara í snögga sturtu og taka búss aftur upp á Nörrebrú til að hitta stöllur mínar frá BS. árunum.

Ég sat þó skammarlega stutt að sumbli þetta kvöld, því eftir grunsamlega lítið áfengismagn var ég kominn með svima og hálf vankaður, þannig að ég hélt snemma heim. Kvöldloftið hressti mig hins vegar við aftur, þannig að þetta hefur bara verið eitthvað tilfallandi stuðleysi.

Í bússinum á leið til baka sá ég að öllum líkindum vasaþjóf að störfum, að vísu áttaði ég mig ekki á því fyrr en eftir á, þannig að ég gat ekki hnippt í hugsanlega fórnarlambið, en ég veit ekkert hvort þjófurinn náði að stela einhverju eða ekki.

Í dag er ég svo með strengi um allan skrokk. Aðallega þó í lærum og kálfum. Fór í hressingargöngu um miðjan dag og staulaðist um Amager í sólskini og hagléljum til skiptis. Göngulagið var ekki sérlega þokkafullt og ég bíð spenntur að sjá hvernig ég verð á morgun.


< Fyrri færsla:
Um (mann)kosti okkar nördanna
Næsta færsla: >
Heilsuátak hvað?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry