Fyrsti stuttbuxnadagurinn

Í gær var allt að því brjáluð blíða hér í Köben, glampandi sól og samkvæmt vefmiðlunum 17-18 stiga hiti. Ég ákvað að nota góða veðrið og taka smá trimm. Það telst til tíðinda að þetta var fyrsta trimm vorsins á stuttbuxum. Ég ætla ekki að reyna að ljúga því að neinum að ég hafi hlaupið langt, enda var tilgangurinn aðallega að hressa sig við.

Ég hélt síðan uppteknum hætti og settist út í kirkjugarð með stóru teikniblokkina og rissaði upp samhengi og afleiðingatengsl fyrir hluta af ritgerðinni, nánar tiltekið kafla um ógnanir og tækifæri tónlistarbransans á MP3 öld.

Núna, um hádegið á annan í hvítasunnu er ég langt kominn með að skrifa upp þann kafla, á líklega tveggja tíma verk óunnið. Þá er bara eftir að draga hliðstæður í handheldum hreyfimyndaafspilurum, velta vöngum um framtíð þeirra og skrifa lokaorð.

Samanlagt er textinn núna kominn á 9. síðu og ég sé fram á það lúxusvandamál að hann verði of langur (9 síðurnar eru í einföldu línubili). Mér sýnist stefna í að ritgerðin verði ca. 15-17 þéttar síður, sem fer eitthvað yfir 20 síður þegar ég eyk línubilið.

Það er samt bara flott ef ég næ að skrifa rúmlega þriðjung úr mastersritgerð (sem mér skilst að miðist við ca. 60 síður í einstaklingsverkefnum).

Annars get ég kannski bara hætt að skrifa, ég rakst í morgun á samantekt af hringborðsumræðum á vegum USA Today um framtíð afþreyingariðnaðarins. Mér sýnist þau nefna nokkurn vegin allt sem ég ætla að skrifa um...

Fyrir áhugasama: What's ahead for Net, digital entertainment. Margt forvitnilegt.


< Fyrri færsla:
Verkefnið mjakast
Næsta færsla: >
Þýðingarsnilldir takmarkaðar
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry