Kæruleysiskast í Álaborg

Ekki get ég nú sagt að verkefnaskriftir séu að setja nein hraðamet, en þetta mjakast í rétta átt og ég er nokkurn vegin á áætlun. Á morgun er það svo kæruleysiskast og ég ætla að taka þriggja daga pásu og heilsa upp á litla bróður í Álaborg.

Í verkefninu er ég búinn að skrifa fyrstu útgáfu af texta fram að því að fara að tala um vídeóspilara. (Fyrir þá sem nenntu að pæla sig í gegnum innganginn þá er ég kominn að því að fara að skrifa það sem er lýst í tveimur síðustu málsgreinunum.) Ég myndi skjóta á að ég sé búinn með ca. 70% af textamagninu, en á eftir að vinna það töluvert betur. Ég kem baka á fimmtudagsseinnipartinn og hef þá rétt rúma viku til að klára - hlýt að fara létt með það.

Ég tek ekkert tengt verkefninu með mér norðureftir, er reyndar með minnisbók til að hripa niður ef mér dettur eitthvað í hug - en annars ætla ég að reyna að kúpla mig eins mikið frá verkefninu og hægt er.

Þetta verður fyrsta ferðin mín út fyrir Köben síðan ég kom úr jólafríinu og í raun fyrsta sinn sem ég fer upp á Jótland síðan ég kom hingað um fermingaraldurinn.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig drengurinn býr og hvort mér tekst að sofa eitthvað á pyntingarbekknum sem mér stendur til boða (mér skilst að gormarnir í dýnunni séu orðnir heldur útstæðir).


< Fyrri færsla:
Þýðingarsnilldir takmarkaðar
Næsta færsla: >
Minns er kominn heim
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry