Þýðingarsnilldir takmarkaðar

Um helgina leigði ég myndina The Manchurian Candidate, með Denzel Washington og Meryl Streep. Það var ágæt tilbreyting að taka mynd sem ég vissi ekki hvað fjallaði um, kápan var bara með helling af stjörnum á - og mig minnti að hún hefði fengið þokkalega dóma. Allt í lagi mynd, ekki eftirminnileg en vel leikin af Washington og sérstaklega Streep sem var yndislega óyndisleg.

Það sem ég tók einna mest eftir var hvað íslenska þýðingin var léleg (já, slatti af DVD myndum hérna úti býður upp á íslenskan texta).

Tvö dæmi sem ég tók sérstaklega eftir:

Þegar verið er að þrátta um hver eigi að vera næsti varaforsetaframbjóðandi og talið berst að öryggismálum, spyr Streep hvort enginn hafi lesið skýrslur Þjóðhagsstofnunar um ógnir sem steðji að Bandaríkjunum. Á ensku voru þetta skýrslur NSA, sem mér vitanlega á ekkert skylt með Þjóðhagsstofnun sálugri. (NSA: National Security Agency).

Síðar fer Streep yfir feril persónu Washingtons sem hafði verið landgönguliði, í lögreglunni og sérsveitunum. Á ensku "Marines, Rangers, Delta" - ekki alveg það sama.

Að auki var fullt af smávillum með t.d. víxl á eintölu og fleirtölu. Þýðingin fær a.m.k. mun lægri einkunn í mínum bókum heldur en myndin sjálf.


< Fyrri færsla:
Fyrsti stuttbuxnadagurinn
Næsta færsla: >
Kæruleysiskast í Álaborg
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry