Sólskinsbolti

Í gær (laugardag) var stefnan sett á fótbolta með F.C. Umulius í Fælledparken, þótt skipuleggjendur virtust hafa vissar áhyggjur af veðurspánni. Um hádegið var líka úrhellisrigning og útlit fyrir að þetta yrði hálfgerður sundbolti. Ég var engu að síður harðákveðinn í að hjóla uppeftir og í versta falli yrði það sú hreyfing sem ég fengi út úr þessu ef boltinn félli niður vegna dræmrar mætingar. Hins vegar fór að glytta í sól þegar nær dró og þetta reyndist sólarbolti hinn besti.

F.C. Umulius er kominn með lógó, sem sumir vilja meina að minni örlítið á lógó F.C. København - en leikvangur þeirra, Parken, er einmitt í einu horni Fælledparken. Dæmi hver fyrir sig:

Merki FC Umulius og FC Kaupinhavnar

Kunnugir geta e.t.v. greint handbragð nafna míns Leifssonar á lógóinu, enda er hann einn prímus mótora þessa boltasprikls.

Þetta reyndist hin besta skemmtun. Völlurinn var reyndar háll á köflum, enda grasstrá á stórum flákum heldur af skornum skömmtum. Alvarleiki var ekki í fyrirrúmi heldur lögð meiri áhersla á græskuleysi og góð tilþrif.

Stórskáldið Auður Jónsdóttir mætti til leiks í óhefðbundnum keppnisklæðnaði; svörtu pilsi, kápu og bleikum strigaskóm - en sýndi glæsileg tilþrif í markaskorun og hárnákvæmum sendingum.

Spúsi hennar TótiL átti einnig góða spretti og meðal annars skoraði hann sjálfsmark dagsins þegar hornspyrna kom óvænt í kviðhæð rétt framhjá stönginni og hann náði ekki að víkja sér undan.

Sjálfur tók ég að mér stöðu svípers í mínu liði og lagði meiri áherslu á killer-passes heldur en mikla markaskorun. Var stoltastur af því að hafa ekki dottið neitt á hausinn, enda heimasvæði svípersins með töluverðum drullublæ.

Í upphafi voru liðin nokkuð jafnvíg, en viðbætur virtust hafa lag á að styrkja annað liðið umfram hitt þannig að vist ójafnvægi skapaðist. Flestir létu sér það þó í léttu rúmi liggja - aðallega að áhorfendur hefðu af þessu áhyggjur.

Eftir boltann var gerður út Suður-Afrískur leiðangur í næstu sjoppu að kaupa bjór og hafist handa við að skipuleggja kvöldið. Því miður þurfti ég að halda heim til að reyna að skrifa smávegis og tók því ekki þátt í þeirri skipulagningu að öðru leyti en að sötra einn bjór hópnum til samlætis.

Ég sá ca. hálftíma af Júró meðan ég maulaði síðbúinn kvöldverð. Mikið var nú freistandi að grípa tölvuna og hripa niður sleggjudóma um sviðsframkomur, brjóstaskorur og bringur, bumbuslátt og hæfileikaskorti - en sjálfsaginn náði yfirhöndinni og ég sat þess í stað við skriftir.

Það segir sína sögu að á meðan Júró stóð var aðeins einn á MSN listanum mínum ánetjaður, Lydia, sem er í sömu sporum og ég og er líka að vinna að sólóverkefni.

Enn er ég ekki að setja nein hraðamet, en verkefnið silast í rétta átt. Bjartsýni enn á að skil verði með ásættanlegu móti.

Veðurduttlungar halda áfram, ég vaknaði við þrumuveður og skýfall um hálf-tíu leytið í morgun. Um hádegið var hins vegar komin glampandi sól og er enn - þótt skýflákar sjáist í fjarska.


< Fyrri færsla:
Burður leirs
Næsta færsla: >
Að elta sinn rass
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry