Allt tekur þetta sinn tíma...

Nú er skiladagur fyrir verkefnið mitt á morgun. Að sjálfsögðu hef ég ekki verið jafn röskur og að var stefnt, en það er nú einhvernvegin þannig að maður nýtir þann tíma sem gefst.

Mér leist ekki á blikuna aðfaranótt miðvikudagsins þegar ég vaknaði um miðja nótt með magaverk og hélt ég væri að verða veikur. Það rjátlaðist þó af mér þegar leið á daginn og ég var orðinn sprækur seinnipartinn.

Í gærkvöldi sendi ég loks útgáfu með öllum texta, þ.e. inngangi, meginmáli og lokaorðum til kennarans míns og fékk viðbrögð við því í dag.

Ég var ánægður með afraksturinn þegar ég fór að sofa um tvöleytið í gær og leyfði mér því að sofa út og taka það rólega fram yfir hádegið. Kommentin frá kennaranum urðu til þess að ég endurskoðaði nokkra kafla, umorðaði og felldi slatta út. Hann bað líka um útdýpkun á lokaorðunum sem ég er rétt í þessu að ljúka við.

Um miðjan dag í dag vonaðist ég til að geta prentað út lokaútgáfu um kvöldmatarleytið, um kvöldmatarleytið vonaðist ég til að geta gert það fyrir miðnættið, og núna um ellefuleytið er ljóst að það er ekkert vit í öðru en að fara bara að sofa og lesa frískur yfir draslið í fyrramálið.

Skilafrestur er til klukkan 3 á morgun, en reynslan er sú að það borgar sig að vera fyrr á ferðinni með að prenta út, þar sem biðraðirnar vilja verða helvíti langar. Ef ég get græjað það fyrir hádegi ætti samt ekki að vera nein hætta á ferðum.

Talandi um afrakstur, í dag rakaði ég mig í fyrsta sinn í tvær vikur eða svo. Sprettan hefur verið þvílík að í miðjum rakstri varð ég að gera hlé vegna þess að skeggstubbarnir höfðu stíflað baðvaskinn. Og nú er ég ekki að skrökuljúga!

Annars er veðrið að verða dejligere með hverjum deginum sem líður. Ég sat í rúman klukkutíma í sólinni í dag með nýjasta útprentið, krotandi og skipuleggjandi uppskurð. Indælt.


< Fyrri færsla:
Veðurspá óhagstæð
Næsta færsla: >
Í sólskinsskapi
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry