Sólarhelgi mikil

Mér skilst að Danir líti svo á að fyrsti sumardagurinn sé þegar hitinn fer yfir 25 gráður einhversstaðar í landinu. Í fyrra gerðist það víst í lok ágúst (einhvernvegin tóxt mér í fyrstu útgáfu af þessari færslu að skrifa október!), en í ár var það núna upp úr miðri nýliðinni viku. Ég skilaði verkefninu mínu um hádegið á föstudeginum og er síðan búinn að njóta sólarinnar vítt um borgina alla helgina og oft í góðum félagsskap.

Brennd rotta

Eins og áður sagði náði ég að skila verkefninu mínu á föstudaginn um hádegið. Ég er ekki 100% ánægður með það, en held að ég sé samt að skila ágætu verki innan rammans.

Þar sem veðrið á föstudagsmorgninum leit vel út ákvað ég að leggja goth-gallannum og vígja stuttbuxurnar og sólgleraugun sem ég keypti í Álaborg. Ég mætti því í skólann í minni bestu strandljónseftirhermu; hnébuxum, gulum bol og með sólgleraugun ógurlegu.

Eftir skil hafði ég mælt mér móts við Aðalstein og við tókum drjúgan göngutúr frá Amager, yfir á Kóngsins Nýtorg og sikksökkuðum síðan kringum Strikið og enduðum á því að taka Löngubrúna aftur yfir á Amager. Glampandi sól og steikjandi hiti. Virkilega fínt að fá sér einn kaldan (og ís á eftir).

Síðan lá leið á fredagsbarinn sem að sjálfsögðu var að mestu drukkinn haldinn úti í sólinni. Ég var sjanghæjaður sem tilraunarotta í tölvuleikjaprófun hjá vinkonu minni sem hefur verið "game designer" í þróunarverkefni undanfarnar vikur. Það var smotterí sem vantaði, en hins vegar var ótrúlega margt sem þau höfðu náð á fjórum vikum.

Um þetta leyti var greinilegt að framhandleggirnir á mér voru orðnir eldrauðir og léttri sviðalykt sló um ganga.

Mannskapurinn byrjaði að fjara út um kvöldmatarleytið og það gerði ég líka, greip mér bita á leiðinni heim og slakaði á yfir imbanum.

Grill og sund í Fælledparken

Á laugardag fór ég í bæinn upp úr hádeginu og keypti mér skó í stíl við sokkana sem ég hafði keypt í Álaborg (hef aldrei gert það áður mér vitanlega).

Eftir spók um miðbæinn tók ég búss upp í Fælledparken þar sem Tótil hafði hnippt í mig að nokkrir af kunningjum hans ætluðu að hittast. Þar lenti ég í þessari líka dýrindis grillveislu í troðfullum garði.

Þar varð sögulegur atburður þegar gestgjafinn Ulrik lagðist til sunds eftir að Tóti hafði gengið berseksgang og grýtt leikföngum fjölmargra barna út í tjörn (nánar um það í myndskreyttri færslu innan skamms).

Þarna safnaðist smám saman soldil íslendingagrúppa og eftir garðinn settumst við á útikaffihús niðri við Sjøerne og sátum þar að spjalli fram eftir kvöldi.

Þrammiþramm

Í dag fór ég á stjá án plana og einn míns liðs. Rölti héðan yfir í Nyhavn, þaðan með sikksakki yfir á Vesterbro og upp með "sjóunum", framhjá höllinni og í gegnum Kongens Have. Þaðan rölti ég svo í metróinn og tók hann heim á Amager. Lauslega skotið sýnist mér þetta hafa verið um 9 kílómetra gangur.

Nú er hins vegar hætt við því að sólgleraugun verði lögð á hilluna í bili, spáin gerir ráð fyrir rigningaviku - sem hentar reyndar ágætlega fyrir námsmann í prófum.

Það eru þrjár vikur í fyrsta prófið og það mun reyna á sjálfsagann. Reyndar eru þjár vikur í þrjú fyrstu prófin - því eins og próftaflan mín er núna þá á ég að taka þrjú próf sama daginn!

Ég er að reyna að hrókera skipti þannig að ég þurfi þó ekki að taka nema tvö sama dag.

Eftir helgina er ég annars kominn með fínar "ermar" sem smám saman eru að breyta lit frá rauðu yfir í minna-fölt-en-áður og hef náð að slaka virkilega vel á.


< Fyrri færsla:
Í sólskinsskapi
Næsta færsla: >
Viðbætur í Vilborgarsafnið
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry