Sunddáð í Fælledparken

Í Fælledparken síðastliðinn laugardag var höfð í frammi söguleg hetjudáð þar sem við sögu komu meðal annars 32 flata fótbolti í undirstærð, einstæð sænsk móðir og sonur hennar, fjarstýrður bátur og heldur seinheppinn íslenskur grafíker. Verður nú hetjudáð þessi færð á Alnetið til varðveislu í máli og myndum.

Eins og áður hefur komið fram skrapp ég í Fælledparken til að hitta Tóta og Auju og vin þeirra Ulrik sem var þar með dóttur sinni á að giska 5-7 ára gamalli. Þar stóð til að hóa saman fólki til grillunar og afslökunar.

Búðum var slegið upp vatnsborð tjarnar/vatns í miðjum garðinum og steikur grillaðar á einnotagrilli.

Leikar tóku að æsast eftir átið, þegar í hópinn höfðu bæst nokkrir íslíngar til viðbótar og legið var í síðdegissólinni á teppum til meltunar í góðu yfirlæti. Ulrik hafði tekið með ýmis útileikföng fyrir dótturina og talið barst að lúkustórum fótbolta sem var með í för og því hvort hann væri raunverulega 32 flata eða 34 eins og Ulrik taldist til.

Tóti var eitthvað að handfjatla boltann og ætlaði að kasta honum til Ulrik að úttekt lokinni. Ulrik gerði sig hins vegar í engu líklegan til að grípa með þeim afleiðingum að hann fékk boltann í ennið og þaðan skoppaði hann út í vatnið. (Boltinn, ekki Ulrik.)

Hægur andvari gerði síðan illt verra með því að bera boltann frá bakkanum og hægt en rólega á vatn út.

boltinn
Boltinn

Eftir stóð lítil stúlka á bakkanum og horfði stóreyg á leikfangið sitt sigla til hafs, innan um endur og tóma plastpoka.

Pabbi hennar varpaði allri ábyrgð á Tóta og benti á að sjálfur hefði hann lokað augunum til marks um að hann væri ekki tilkippilegur til leikja. Tóti reyndi að gera gott úr málinu og það voru uppi nokkrar umræður um það hvernig best væri að ná til boltans, eða jafnvel hvort það ætti bara að bíða þar til hann næði landi hinum megin vatnsins. Þar var hins vegar töluverður sefgróður og ólíklegt að honum yrði bjargað þaðan þurrfóta.

Nokkrum teppalengdum frá okkur voru móðir og um 10 ára strákur að grilla. Strákurinn var með fjarstýrðan bát og sigldi honum varfærnislega eftir vatnsbakkanum. Sú hugmynd kom upp hvort hægt væri að sigla bátnum í veg fyrir boltann og eftir nokkrar umræður rölti Tóti yfir til þeirra mæðgina til að bera undir þau hugmyndina.

Ákveðinna efasemda gætti reyndar í hópnum um hvort þetta væri raunhæft, boltinn kominn út á mitt vatn þegar hér var komið sögu og ekki alveg ljóst hvernig gengi að koma honum aftur til lands enda virtist báturinn í svipuðum þyngdarflokki og boltinn. Það var því efins hópur sem gjóaði augum yfir að vettvangi samningaumleitananna.

Strákur virtist fallast á hugmyndina og sýndi Tóta hvernig ætti að stýra bátnum. Eftir stutt æfingaferli blés skipper Tóti því í skipsflautuna og lagði í björgunarleiðangurinn til að bjarga boltanum.

Hins vegar var báturinn varla kominn nema 8-9 metra frá landi þegar hann nam staðar. Fjarstýringin dró ekki lengra. Strákgreyið fór að gráta, mamman áttaði sig á því hvers vegna báturinn hefði verið svona ódýr og Tóti greyið stóð á bakkanum teygjandi fjarstýringuna eins langt út yfir vatnsborðið og hægt væri. Staðan hafði skyndilega þróast mjög til hins verra.

Tóti klóraði sér í kollinum og við hin svipuðumst um eftir fleiri börnum með leikföng sem hann gæti hent út í vatnið. Auja fór hins vegar að gramsa í bakpokum í leit að sandölum til að vaða í út í vatnið.

Reis þá Ulrik, sem hafði heldur haft sig hægan í atgangi öllum, upp, reif sig úr klæðum flestöllum og óð út í vatnið til bjargar bátnum. Fleytinu var ýtt til lands við mikinn létti ungs drengs (og eflaust Tóta líka).

báti bjargað
Báti bjargað

Lét Ulrik ekki þar við sitja, heldur stakk sér til sunds með tilþrifum nokkrum og skriðsynti yfir á hinn bakkann þar sem boltinn var við það að koma sér inn í sefið.

á sundi
Á sundi

á hinum bakkanum
Á hinum bakkanum

Á bakkanum stóðu áhorfendur agndofa yfir tilburðum þessum og fylgdust spenntir með.

áhorfendur
Áhorfendur (báteigandi og móðir í bakgrunni)

Að lokum skilaði kappinn sér ásamt boltanum á land, dótturinni til allnokkurs léttis og mátti vart á milli sjá hvorn hún væri ánægðari að endurheimta, pabba sinn eða boltann.

landtaka
Landtaka

Ulrik afþakkaði öll tilboð um teppi og tuskur til að þurrka sér í, kaus heldur gamaldags vindþurrkun og að ylja sér á sígarettu. Síðustu dreggjar rauðvínsins voru snarlega tíndar til og hetjan huggaði sig með rettu og rauðvín. Hann vildi meina að vatnið hefði verið merkilega hlýtt, en ekki laust við að leðjan á botninum hefði verið fastheldin á þá fætur sem í hana stigu.

verðskuldaður dropi
Verðskuldaður dropi

Í þessum rituðum orðum er ekki vitað til þess að neinum hafi orðið meint af; sundkappa, knetti né bát.


< Fyrri færsla:
May the Farm be with you!
Næsta færsla: >
Próflestur fer rólega af stað
 


Athugasemdir (1)

1.

Þórarinn Leifsson reit 31. maí 2005:

Já nei takk. Ég dýfi mér ekki í fuglaskít fyrir 100 krónur í Tigerbúð. En þetta var andskoti skemmtilegt á að horfa.
Tóti barnaníðingur

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry