júní 2005 - færslur
03. júní 2005 | 0 aths.
Ekki get ég nú státað mig af miklum dugnaði þessa fyrstu viku í próflestrinum. Enda er fyrsta próf ekki fyrr en 20. og pressan ekki sérlega mikil. Það sem verra er að ég vissi nokkurn vegin að þetta yrði svona, en þrátt fyrir góðan ásetning hefur vikan meira eða minna gufað upp.
08. júní 2005 | 0 aths.
Í gærmorgun var ég langt kominn með að skrá hér ítarlega skýrslu af atburðum helgarinnar, þar á meðal heimsókn Sigmars bróður og pool leiknum sem hann harðneitar að hafi nokkurn tíman farið fram. Þá skyndilega í miðjum klíðum bluescreenar Surtla blessunin (í fyrsta sinn í tæplega árs samvistum okkar) og var eitthvað treg í gang aftur.
10. júní 2005 | 0 aths.
Surtla fór í viðgerð í gær. Það er ekki ofsögum sagt að fyrirtækið sem ætlar að koma henni til lífs á ný sé staðsett úti í rasskati. Það sannreyndi ég í gær.
10. júní 2005 | 0 aths.
Rétt í þessu var ég að fá póst um að ég sé kominn inn á kollegí. Um er að ræða herbergi 101 á Scandis Boligerne. Ég er ekki búinn að skoða herbergið og veit ekki hvenær ég get fengið það afhent, en nánari upplýsingar munu vera á leiðinni í pósti.
12. júní 2005 | 0 aths.
Á föstudagskvöld fór ég á opnun nýjustu Superflex-uppákomunnar; Copy Shop. Þar var meðal annars boðið upp á Free Beer, sem er alþjóðleg útgáfa af Vores Øl bjórnum sem við unnum fjögurra vikna verkefni um síðastliðinn desember.
12. júní 2005 | 1 aths.
Mig langar á tónleikana með Foo Fighters og Steinaldardrottningunum 5. júlí. Er einhver sem ég þekki á leið þangað? Ég þori ekki að fara einn...
14. júní 2005 | 0 aths.
Það reyndist rétt hjá félaga Rasmus superflexara, umfjöllun um bjórinn okkar var í New York Times í gær. Þetta er reyndar ekki lengsta grein í heimi, en dekkar samt ágætlega það sem fjallað er um. Áhugasamir geta lesið greinina hér: Pass Over a Frosty Mug of Home Brew Version 1.0 (ókeypis skráningar krafist).
15. júní 2005 | 0 aths.
Í morgun fékk ég pósttilkynningu um að Surla væri komin heim og ég krafinn um heldur hátt lausnargjald fyrir hana (a.m.k. miðað við að hún er í ábyrgð og ég ætti bara að vera að borga fyrir flutning). Upp úr kassanum kom svo tölvan og tilkynning um að það væri ekkert að! Það sem meira er, ég er farinn að halda að það sé rétt...
15. júní 2005 | 0 aths.
Búsetuplottið þykknar, nú er ég búinn að fá pappíra um herbergið sem ég ætla að búa í næsta vetur en fæ það hins vegar ekki afhent fyrr en 15. júlí - um það bil tveimur vikum eftir að ég ætla að vera kominn heim á klakann. Það stefnir því allt í að ég þurfi að setja dótið mitt í geymslu þann 1. júlí og sækja það svo í haust þegar ég kem.
15. júní 2005 | 0 aths.
Í þetta sinn lafði Surtla uppi í 5 klukkustundir áður en hún gaf upp öndina með bláum blossa (kannski ekki blossa, en bláskjá dauðans). Þegar hún hresstist aftur fletti ég upp í vefnum hans Bill Gates og hann er á því að þessi villa stafi af vélbúnaðarvandamálum. Ég kíkti í event-logginn til að athuga hvort ég sæi eitthvert mynstur í bláskjáum undanfarinna daga og sá þá mér til mikillar furðu að það síðasta sem gerðist í "viðgerð" baunanna var að vélin blúskrínaði. Eftir tilheyrandi endurræsingu hafa þeir slökkt á vélinni og úrskurðað að ekkert væri að!
16. júní 2005 | 2 aths.
Í pistli dagsins frá fréttaritara vorum í Kaupmannahöfn ber þetta meðal annars á góma: Skort á frosti, nágrannafréttir, heimför, geymsluhúsnæði, prófundirbúning, sólarveður og fleira...
20. júní 2005 | 0 aths.
Þá er ég búinn í fyrsta prófinu. Verkefnastjórnun í morgun þar sem ég fékk 9 (samsvarar ca. íslenskri 8). Ég er alveg sáttur við það, þótt auðvitað hefði ég heldur viljað 10. En maður tekur sénsa með það efni sem maður velur að tala um og ég valdi ekki það léttasta - og það var smávægileg "gildra" sem ég tók ekki eftir í eftirfylgjandi spurningasessjón.
20. júní 2005 | 2 aths.
Á þriðjudaginn var mér boðið í íslenskan fisk og skoðunarferð hjá Ernu og Steinunni ásamt meðfylgjandi úttekt á þriðjudagsbar DTU. Eftirfarandi er örstuttur samanburður á börunum tveimur á ITU og DTU.
20. júní 2005 | 2 aths.
Ég held áfram að gefa yfirlit yfir helstu atburði undanfarinnar viku. Á laugardaginn stóð ég upp frá prófundirbúningnum um þrjúleytið og hjólaði í sól og blíðu niður á Amager ströndina þar sem íslíngafélagið var með síðbúinn 17. júní fagnað. Þar hitti ég fyrstan manna stórmeistarann Birgi Rafn ásamt spúsu og dúllulegri dóttur.
21. júní 2005 | 1 aths.
Próf númer tvö var seinnipartinn í gær og gekk ágætlega. Ég fékk 10 (um það bil 9 á íslenskum kvarða) gegn því að "lofa" að vinna áframhaldandi verkefni á svipuðu sviði, verkefnið þótti ekki alveg geta staðið eitt og sér en virkað ágætlega sem undanfarin einhvers meira. Í framhaldi af prófinu nefndu svo kennarinn minn og prófdómarinn áhugavert alþjóðlegt verkefni með nokkrum stórum fyrirtækjanöfnum sem er að byrja í haust og þeir taka báðir þátt í. Það kemur sem sé til greina að ég komi að því verkefni með einhverjum hætti og það huxanlega orðið grunnur að mastersverkefni. Ég á von á nánari upplýsingum flótlega.
24. júní 2005 | 0 aths.
Á miðvikudagskvöld mætti ég í próf í (grunnleggjandi) grafískri hönnun. Þar fékk ég nokkuð beinskeytta gagnrýni, en hrós fyrir góða kynningu. Lokaniðurstaðan varð einkunnin 9 sem ég er sáttur við, enda kennarinn ekki þekkt fyrir að gefa háar einkunnir.
24. júní 2005 | 0 aths.
Vefþjóninn er með einhverja stæla og fokkar upp stafasettinu í nýjum færslum. Ég kíki betur á það á morgun, núna er ég á leið á fredagsbarinn eftir alveg frábæran sólardag. Nánar um það betur þegar ég kem þessu í lag (þarf að fara leiðinda fjallabaksleið að íslensku stöfunum í augnablikinu).
28. júní 2005 | 0 aths.
Ég hef lítið gert af því að skrifa í dagbókina undanfarið, einkum vegna anna og veikinda Surtlu litlu. En nú er sem sé síðasta prófið í fyrramálið og ég er að fínpússa fyrirlesturinn. Það verður svo að skýrast hvort og hvenær ég næ að festa á vefþjón þær hugrenningar sem hafa skotið sér upp í kollinum undanfarið og ættu fullt erindi hingað.
29. júní 2005 | 2 aths.
Þá er þessari önn lokið, síðasta prófið afstaðið. Það var að mörgu leyti merkilegt því verkefnið sem kúrsinn byggir á unnum við í hóp og vorum öll saman í prófherberginu þótt við héldum okkkar munnlegu framsögn hvert fyrir sig. Einkunnirnar voru frá 8-10, með mig í áttunni. Greinilegt að þeir lögðu mikla áherslu á frammistöðu dagsins - sem er óvenjulegt því oftast er ekki nema 1 sem skilur að einkunnir innan hóps. Það skondna er svo að sú sem fékk hæstu einkunnina er sú sem lagði (að mínu mati) einna minnst til verkefnisins. En svona er lífið.