Próflestur fer rólega af stað

Ekki get ég nú státað mig af miklum dugnaði þessa fyrstu viku í próflestrinum. Enda er fyrsta próf ekki fyrr en 20. og pressan ekki sérlega mikil. Það sem verra er að ég vissi nokkurn vegin að þetta yrði svona, en þrátt fyrir góðan ásetning hefur vikan meira eða minna gufað upp.

Hugmyndin var sú að vera duglegur í 2-4 tíma á dag og slappa svo almennilega af með góðri samvisku. Hins vegar hefur veðrið ekki verið spennandi til útivistar þannig að ég hef ýmist haldið mig heima við eða dúllað mér í skólanum. Ég er hins vegar efins um að ég hafi náð 4 virkum tímum í próflestur samanlagt.

Ég hef þó komið ýmsu smálegu í verk, sinnt heimilisstörfum, græjað nýja keðju á hjólið og fleira í þeim dúr.

Ég er loksins búinn að setja leikþáttinn minn, Á uppleið á vefinn eins og staðið hefur til lengi. Þeir sem hvorki sáu hann í Kaffileikhúsinu né Borgarleikhúsinu geta því fengið nasaþef af dýrðinni.


< Fyrri færsla:
Sunddáð í Fælledparken
Næsta færsla: >
Surtla komin með bláskjáveiki
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry