Surtla komin með bláskjáveiki

Í gærmorgun var ég langt kominn með að skrá hér ítarlega skýrslu af atburðum helgarinnar, þar á meðal heimsókn Sigmars bróður og pool leiknum sem hann harðneitar að hafi nokkurn tíman farið fram. Þá skyndilega í miðjum klíðum bluescreenar Surtla blessunin (í fyrsta sinn í tæplega árs samvistum okkar) og var eitthvað treg í gang aftur.

Þegar ég kom heim seinnipartinn reyndi ég að sjúkdómsgreina litla skinnið og komst fljótlega á þá skoðun að þetta myndi vera vélbúnaðarvandamál. Þegar ég notaði IBM sjálfsgreiningu sem er hægt að keyra upp áður en Windows startar stóðst hún öll prófin (að vísu var einn sektor á harða disknum ólæsilegur, en ég held að það sé afleiðing frekar en orsök) þar til kom að því að tékka á minninu. Þá kolfraus hún.

Í morgun hringdi ég svo í þjónustuaðila IBM til að fá að vita hvar næsta verkstæði er (hún er enn í ábyrgð þannig að engin ástæða til að hleypa einhverjum fúskurum í að þukla á henni). Það reyndist vera lengst úti í rasskati, nánar tiltekið utan við Høje Taastrup, og mér sýnist þetta verða um þriggja tíma ferð fram og til baka (með tveimur strætóum og einni lestarferð hvora leið). Þar sem ég var of seinn að drusla mér á lappir í morgun sá ég fram á að það yrði óþarfa stress að reyna að fara með hana í dag - ég er nefnilega á leið í spurningatíma í verkefnastjórnun. Þannig að nú er stefnt á að koma henni undir læknishendur í fyrramálið.

Eins og venjulega þegar svona kemur upp bölvar maður sjálfum sér fyrir að hafa ekki verið duglegri í bakköppunum, ég veit ekki hvað ég er lengi búinn að vera á leiðinni að taka afrit af öllum helstu gögnum yfir á geisladiska.

Hins vegar get ég (yfirleitt) unnið í nokkrar mínútur í Windows áður en hún fær bláu útbrotin og er því búinn að afrita yfir á USB kubb þær skrár sem ég má alls ekki við því að missa í prófundirbúningnum.

Þó hef ég engar teljandi áhyggjur af harða disknum, vandamálið virðist ekki liggja þar.

Nú er að sjá hvort fyrirsjáanlegir dagar án Surtlu muni skila sér í auknum námsafköstum eða hvort ég leggst bara í fráhvörf og aumingjaskap.

Að minnsta kosti er ljóst að tölvuaðgangur minn næstu daga verður takmarkaður við skólann.

PS: Í gær fékk ég tilboð um kollegíherbergi sem ég er búinn að svara jákvætt. Ég er annar á listanum, þannig að ef móttakandi nr. 1 svarar ekki jákvætt er slotið mitt. Niðurstaða ætti að liggja fyrir á morgun.


< Fyrri færsla:
Próflestur fer rólega af stað
Næsta færsla: >
Orðinn tölvulaus
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry