Orðinn tölvulaus
10. júní 2005 | 0 aths.
Surtla fór í viðgerð í gær. Það er ekki ofsögum sagt að fyrirtækið sem ætlar að koma henni til lífs á ný sé staðsett úti í rasskati. Það sannreyndi ég í gær.
Að sjálfsögðu var ég ekki eins snemma á ferðinni og ég hafði ætlað, en var kominn upp til hins háa taastrup um hálftólfleytið. Þaðan tók ég strætó upp í sveit og rölti svo gegnum gisið einbýlishúsahverfi þar sem á að giska fimmta hvert hús er með stráþaki (!). Þar handan við var svo iðnaðarhverfi og í enda botnlanga fann ég kompaníið.
Það mun líklega taka viku að fá tíma á aðgerðastofunni, og ég bað um að fá tölvuna senda að því loknu - ég nenni ekki að þvælast þarna uppeftir aftur.
Annars var þetta alls ekki slæmur túr, veðrið var gott og ég ákvað bara að líta á þetta sem smá skoðunarferð. Smurði mér nesti og étti það í sólinni.
Í bússinum á leiðinni til baka ókum við framhjá skilti sem tilkynnti um borgarmörk Stórkaupinhafnar - þannig að þetta hefur formlega verið fyrir utan borgina.
Ég staldraði aðeins við í miðbæ Høje Taastrup, ekki mikið að sjá þar. Reyndar minnti miðbærinn mig á Ísland; greinilega búið að leggja mikla vinnu í að hanna "spennandi" umhverfi með hellulögnum og litlum torgum, "töff" húsum og skúlptúrum. Það sem maður tók þó helst eftir voru bílastæðaflákar og að það var varla kjaftur á ferðinni þótt sólin skini og hitinn nálgaðist tuttugu stig.
Heima á Amager las ég svo aðeins í sólinni áður en ég fór út að hlaupa. Kvöldinu varið í dorm yfir sjónvarpinu.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry