Bjórinn lifir!

Á föstudagskvöld fór ég á opnun nýjustu Superflex-uppákomunnar; Copy Shop. Þar var meðal annars boðið upp á Free Beer, sem er alþjóðleg útgáfa af Vores Øl bjórnum sem við unnum fjögurra vikna verkefni um síðastliðinn desember.

Free Beer útgáfan var bruggaður í tæpum þúsund lítrum fyrir uppákomu í Þýskalandi þar sem hann mun hafa rokið út. Samkvæmt Rasmus yfirstrumpi Superflex þá er danskt brugghús (sem ég man ekki nafnið á) með á prjónunum að brugga Vores Øl í 10.000 lítrum og selja í verslunum í haust.

Það sem meira er að það bendir allt til þess að fjallað verði um fyrirbærið í New York Times á morgun, mánudag. Spurning hvort maður reynir að verða sér úti um eintak...

Þetta var í fyrsta sinn sem ég drekk nógu mikið af þessum guaranabjór okkar til að finna á mér, það er óneitanlega merkilegt sambland af bjórvímu og örvunaráhrifum guaranans. Opnunin stóð til hálf ellefu og þá fluttum við okkur um set á bar í nágrenninu.

Á laugardagskvöld hitti ég svo Tóta og Auju og kíkti með þeim og kunningjum á kaffihús og bar - sem reyndist vera sami barinn og ég sat á kvöldið áður. Lítill heimur, Kaupmannahöfn.

Nú fer í hönd síðasta vikan fyrir próf, kominn tími á að draga fingur út úr líkamsopum og bretta upp ermar.


< Fyrri færsla:
Kominn með húsnæði fyrir næsta vetur
Næsta færsla: >
Upp með rokkið!
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry