Boltagrill með íslenskum nasaþef

Ég held áfram að gefa yfirlit yfir helstu atburði undanfarinnar viku. Á laugardaginn stóð ég upp frá prófundirbúningnum um þrjúleytið og hjólaði í sól og blíðu niður á Amager ströndina þar sem íslíngafélagið var með síðbúinn 17. júní fagnað. Þar hitti ég fyrstan manna stórmeistarann Birgi Rafn ásamt spúsu og dúllulegri dóttur.

Þau voru í góðum gír, en við náðum ekki að spjalla lengi saman þar sem ég var búinn að lofa mér í FC. Umulius fótbolta í Fælledparken kl. 4.

Stefni að því að ná betur á kappann í haust, það er að styttast heldur mikið í heimför til að reyna að skipuleggja eitthvað í vor. Ég held það sé langt síðan ég hef verið með meira hár en Biurfinn, en á móti var hann með mun tilkomumeiri hökutopp en ég...

Annars var lygilega mikið af léttklæddu íslensku fólki þarna á ströndinni, leiktæki á einum vængnum, sjoppur og fjöldasöngur á öðrum og ég gat ekki heyrt betur en frá skóginum bærist ómur af Árna Johnsen að brekkusyngjast. Mér létti reyndar stórum þegar ég komst að því að það var yfirgefna hátalarastæðan sem gaf Árnahljóðin frá sér - ekki að goðið væri falið inni í skóginum. Eflaust hefði ég þekkt fleiri ef ég hefði gefið mér tíma til að rölta um svæðið, en svo varð ekki.

Hjólatúrinn upp í Fælledparken reyndist með allra lengsta móti, enda drjúgur mótvindur. Ég held að ég hafi verið hátt í þrjú kortér á leiðinni en steig þó hjólið duglega.

Mér leist ekki á blikuna þegar ég mætti um kortéri of seint, enda var ég þriðji maður á svæðið. Það rættist þó úr því og við vorum líklega tíu á vellinum þegar mest var.

Leikurinn var jafn og spennandi þar til við mistum ofur-herjana Auði og Caroline og hinir fóru að síga fram úr. Samkvæmt hefð var samt lokamarkið látið ráða úrslitum (þrátt fyrir að staðan væri 10-7 þegar kom að því). Það varð mitt fyrsta mark og þar með tryggði ég mínu liði verðskuldaðan sigur.

Í framhaldi af leiknum var blásið til grills. Ég hafði ætlað heim en lét til leiðast að taka þátt í grilluninni. Reyndar kólnaði með kvöldinu og stuttbuxurnar mínar ekki þær hlýjustu í heimi.

Nærbúandi gerðu hins vegar út leiðangur að sækja íslenskar lopapeysur og teppi. Ég var því helvíti reffilegur með hvítt teppi vafið um mig eins og pils - notaði tækifærið til að viðra skoskan uppruna minn og slá um mig með gervilega skoska framburðinum mínum.

Heim var ég svo ekki kominn fyrr en klukkan að ganga ellefu, þannig að ég lét nægja að berja fyrirliggjandi handrit inn í tölvuna áður en ég skrölti í rúmið.


< Fyrri færsla:
ITU / DTU samanburður - seinni hluti
Næsta færsla: >
Skin og skúrir í prófatilverunni
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 22. júní 2005:

Bið þig að forðast orðasambandið "í góðum gír" þegar kemur að mannlýsingum. Hér á Skerinu hefur Séð og Heyrt algerlega eyðilagt þennan frasa og setur að manni hroll við að lesa hann. Gildir einnig um "í fínu formi".
Hefði annars ekkert litist illa á það þó einhver hefði falið Árna Johnsen í dönskum skógi, á meðan tryggt væri að hann rataði ekki út aftur....

2.

Þórarinn.com (32) reit 22. júní 2005:

Ábending móttekin. Ég mun gera mitt besta til að verða ekki blandað saman við Séð og Heyrt hryllinginn.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry