Flutningaspanið

Þá er kominn tími á örlítið umaxlarlit og segja frá fjörinu sem einkenndi síðustu dagana mína í Köben þegar sannaðist að hinar vandlegustu áætlanir eru einmitt þær sem klikka með mestum glæsibrag.

Ég kláraði sem sagt síðasta prófið um hádegi á miðvikudegi og átti flug heim á föstudagskvöldi. Eftir prófið sátum við úti í sólinni og drukkum einn eða tvo öllara og mér tókst að sólbrenna aftur á upphandleggjunum. Eftir það fór ég svo á stjá, hjólaði að græja greiðslu fyrir geymsluna sem ég leigi í sumar og fá lykilinn, kaupa flutningakassa og teip auk annars smálegs. Ætlunin var að pakka niður á fimmtudegi og taka föstudaginn í þrif og smásnatt.

Það hefur eflaust verið kostulegt að fylgjast með mér drösla kössunum heim því þetta er líklega 10 mínútna gangur og golan gerði það að verkum að samanbrotnir kassarnir vildu helst vera allt annarsstaðar en snyrtilega undir handarkrikanum. Sérstaklega þar sem þeir voru of háir til að ég næði almennilega undir þá og var því með þá klemmda á mjög ankannalegan hátt.

Síðan hitti ég Huld og Sigga og við fengum okkur einn öllara - eða tvo - áður en ég kynnti þau fyrir vinum mínum ítölsku samlokubökurunum.

Pøkkun hefst

Um kvöldið byrjaði ég svo aðeins að stússast, henti í einn kassa því sem ég ætlaði að pakka niður til að taka með heim og byrjaði að tæma skápinn minn.

Eins og áður segir var planið að taka fimmtudaginn í að pakka öllu niður nema rúminu, fá svo bíl rétt fyrir hádegið á föstudeginum til að skutla dótinu í geymslu og þrífa herbergið seinnipartinn og fara beint út á völl. Ég samdi við Huld og Sigga að rétta mér hjálparhönd við að drusla rúminu niður, enda hafði brostið á með miklum landflótta þeirra kunningja minna nærbúandi sem lágu best við höggi.

Á fimmtudeginum fór ég svo síðustu ferðina í myntþvottahúsið til að taka sem minnst með mér óhreint heim. Meðan þvotturinn var að þeytast um settist ég út í sólina til að panta bíl - enda vildi ég vera viss um að hann kæmi þegar mér hemtaði best og fannst óþarflega tæpt að panta bara á föstudagsmorgninum.

Plottið þykknar

Ég var með tvö númer frá geymslugæjanum, en þar átti hvorugur bíl daginn eftir. Þeir gáfu mér upp númer annarra stöðva, en þar var sama sagan og hvert sem ég prófaði að hringja átti enginn bíl fyrir mig á föstudeginum. Þegar einn þeirra missti svo út úr sér að það væru allir að flytja þennan dag, 1. júlí, og að það væri næstum vonlaust að fá bíl sá ég að nú væru góð ráð dýr.

Ég sá fram á það að verða að klára málið þarna á fimmtudeginum, því annars væri ég í verulega síðum hægðum. Enda takmarkað hvað hægt er að taka með sér af mublum á hjólinu ef ég fengi engan bíl....

Fyrsta skrefið var að hringja í Hönnu Birnu til að tékka hvort ég gæti fengið gistingu þar aðfaranótt föstudagsins. Það var lítið mál og ég spurði hana hvort það væri kannski möguleiki að fá Jesper til að hjálpa mér við burðinn ef á þyrfti að halda, en hann vinnur í miðbænum og var því ekki mjög langt frá mér. Siggi og Huld voru nefnilega á leið á Hróarskeldu þetta kvöld.

Þá var bara að prófa hvort þetta væri yfir höfuð mögulegt (overhovedet eins og við segjum Danir) þannig að ég setti iPod í eyrun, graðhestarokk undir leshausin og hleypti hami.

Eftir góða skorpu á stuttbuxunum einum fata - auðvitað var steikjandi hiti og sól úti - sá ég fram á að þetta ætti að vera gerlegt og tók til við að reyna að ná í bíl. Þá hafði mér tekist í kaósinni að týna miðanum sem ég skrifaði öll sendibílastöðvanúmerin á!

Ekki bætti úr skák að síminn minn blessaður sem hefur enst mér svo vel árum saman ákvað að þetta væri einmitt dagurinn til að láta líf rafhlöðunnar og vældi því á mig ef ég dirfðist að taka meira en 5 mínútna fjarveru frá hleðslutæki...

Hin góðu ráð tóku nú að gerast heldur dýr, þannig að ég notaði símann til að hringja í síðasta úthringda númer sem var þá stöð sem einhver sem vísað hafði verið á hafði vísað á, eða eitthvað í þá átt (a.m.k. ekki fyrsti kostur)... Þeir töldu gerlegt að koma um sexleytið (þarna var klukkan orðin 4) en þar sem kallinn virkaði eitthvað hikandi lofaði ég að fyrra bragði að allt yrði komið niður á götu þegar hann kæmi.

Kallaður til liðsauki

Til að geta staðið við það varð ég að ræsa út Jesper og hann tók vel í að koma kortér fyrir sex.

Áfram var haldið í niðurpökkunum og áherslan var lögð á afköst umfram gæði. Ég hafði áætlað að ég þyrfti líklega tvo flutningakassa auk þeirra kassa sem ég hafði flutt dótið í út. Verkefnastjórnunarreynslan sagði mér að taka einn til viðbótar og til að gæta fyllsta öryggis hafði ég á endanum keypt fjóra. Að sjálfsögðu fyllti ég þá alla saman...

Um fimm brá ég bol yfir svitaperluglitrandi bringu til að ganga ekki fram af þeim nágrönnum sem ég kynni að hitta í stigaganginum - og byrjaði að bera niður af fjórðu hæðinni.

Ég kepptist við að koma öllu draslinu nema rúminu niður áður en Jesper kæmi - sá fyrir mér að við myndum taka rúmið í sameiningu og gætum svo chillað aðeins áður en bíllinn kæmi, ég gæti gefið honum einn bjór eða svo og sýnt honum hvernig ég bjó.

Hins vegar tók bíllinn upp á þeim ósóma að mæta kortéri á undan áætlun og þar með líka á undan Jesper.

Bílstjórinn mætti með táningsson með sér og það dugði ekki að við sætum þrír verklausir - bílstjórinn vildi ólmur og uppvægur hjálpa mér að sækja rúmið þannig að við gætum byrjað að stafla almennilega í bílinn.

Þegar því var komið niður með vart-teljandi herkjum var Jesper mættur, en fékk ekkert hlutverk annað en að setja nokkra kassa inn í bílinn. Ég varð því að þakka honum fyrir aðstoðina án þess að geta gefið honum vott né þurrt og senda hann aftur yfir á meginlandið.

Þeir feðgar skutluðu mér hins vegar í geymsluna, hjálpuðu mér að fylla hana og buðust svo til að skutla mér til baka. Allan tíman tönnlaðist kallinn á því að þeir væru ódýrir í stærri verkefnum en að fyrir svona verkefni væru þeir miklu dýrari en stóru strákarnir á markaðnum. Ég sagði honum eins og var að hringingin í hann hefði verið í hálfgerðri panik og hugsaði með sjálfum mér hvaða svívirðilegu upphæð hann myndi nú nefna.

Líklega hefur hann séð einhverjar aumur á mér og gefið mér aumingjaafslátt, þannig að þetta urðu þó ekki nema 350 krónur danskar - sem mér fannst mjög vel sloppið.

Síðasti móhíkaninn kebabinn

Þegar heim kom ákvað ég eftir síðasta kebab sumarsins hjá vini mínum Jónatan að taka kvöldið í að þrífa til að losna við að gera það á föstudeginum. Ég ætlaði að hringja í Hönnu Birnu til að láta hana vita að ég kæmi ekki fyrr en seint um kvöldið - en þá var inneignin í símanum mínum búin!

Það fyrsta sem ég sá þegar ég kom aftur upp í herbergið var skrifborðsstóllinn minn sem stóð á miðju gólfinu - hann hefði auðvitað átt að fara með í geymsluna en gleymdist einhvern vegin. Andreas lofaði að gera honum gott heimili í sumar og ég sæki hann við tækifæri í haust.

Meðan á þrifunum stóð rifjaðist upp fyrir mér saga af vini pabba sem á námsárunum skilaði af sér herbergi sem hann hafði leigt hjá eldri hjónum. Þau eiga að hafa bent honum kurteislega á að hann myndi hafa gleymt að strjúka ofan af gólflistunum. Ákveðinn í að lenda ekki í því sama böðlaðist ég á gólflistunum þar til stórsá á málningunni.

Törninni lauk svo á því að ég hjólaði í skólann, læsti hjólið í hjólageymslunni, prentaði út flugmiðann, keypti inneign á gemsann og rölti lox heim.

Eftir sturtu kvaddi ég svo Andreas og tók leigara heim til Hönnu Birnu og Jesper.

Á föstudeginum var ég ógurlega feginn að hafa lokið þrifum og gat í staðinn slakað á í sólinni með þeim mæðgum Hönnu Birnu og Sif Dalby, milli þess sem ég keypti iPodda af ýmsum stærðum og gerðum með tilheyrandi þeytingi milli verslana.

Biðröð dauðans

Þau hjónaleysin skutluðu mér svo út á völl um kvöldið, ég vissi að það væri meira að gera á Kastrup á sumrin en á veturna og ákvað því að stóla ekki á að mæta bara klukkutíma fyrir brottför, mér tókst reyndar ekki að mæta tilskildum tveimur tímum fyrir en þóttist þó vera þokkalega tímanlega - þegar ég kom að innrituninni reyndist svo röðin teygja sig eins langt og augað eygði og hverfa loks bak við sjóndeildarhringinn.

Ég sá að það yrði aldeilis til að bíta höfuðið af skömminni ef ég kæmist ekki í vélina heim, en frekar en að örvænta tróð ég hvítu eyrnatöppunum í hlustirnar og setti rólega playlistann á iPodinum í gang og andaði djúpt. Þetta hafðist allt að lokum og ég var kominn gegnum vopnaleitina ca. kortéri áður en byrjað var að hleypa inn í vélina.

Þar lenti ég við hliðina á náfrænda mínum, Kidda kappa. Við sátum sitt hvorum megin við ganginn, en það tók smá stund fyrir okkur að átta okkur á hvorum öðrum. Þegar hann kom lafmóður sem síðasti farþegi um borð fannst mér þessi maður líkur Kristni frænda en væri líklega ekki hann. Hann huxaði víst eitthvað svipað, en þegar hann heyrði mig spjalla á dönsku við sessunautana hélt hann líka að hann væri að fara mannavilt. Það var svo þegar hann hnippti í mig til að fá lánaðan Mogga að við horfðumst í augu og þekktum hvorn annan. Hann hefur mannast heilmikið drengurinn...

Heimurinn er lítill - og fer minnkandi.

Í næsta pistli verður eflaust sagt frá endurnýjuðum kynnum mínum af landi og þjóð - sér í lagi strætókerfinu. (Ef ég fæ ekki harðsperrur í fingurna af þessari ræpu allri saman.)

Lifið heil.


< Fyrri færsla:
Fullar forsendur til betrunar
Næsta færsla: >
Beðið eftir strætisvagnastjóranum Godot
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry