Þokubólstrar á heila

Líðanin í morgun var heldur undarleg. Ég var ekki þunnur og ekki syfjaður (ekki svo að skilja að það teljist undarleg líðan að vera laus við timburmenn á föstudagsmorgni). Hins vegar sat rauðvínsþamb gærkvöldsins og stuttur svefn í mér í mynd sem jaðraði við höfuðverk og olli ákveðnum einbeitingarvanda. Eins konar þokubólstrar á heila...

Ekki alveg besta ástand til að lesa forritunargreinar á vefnum, en það lagaðist þó þegar leið á daginn og ég náði að sýna töluverð tilþrif í xml/xsl/asp forritun áður en brast á með helgi.

Átylla rauðvínsdrykkjunnar í gærkvöldi var heimsókn til Arnar og Unnar, þar sem mér var boðið í dýrindis kvöldverð að hætti hússins. Heimasætan fór mikinn í tilraunum til að ná athygli gestsins og við dunduðum okkur meðal annars við púslur auk feluleikja og annarrar skemmtunar. Tiltölulega glænýr litli bróðir hennar, Hlynur Örn, lét sér hins vegar fátt um finnast.

Ég hafði gripið með mér flösku af Suður-Afrísku rauðvíni (svona af handahófi) sem reyndist alveg prýðilegt. "Very good second class" - eins og það heitir. Að henni lokinni dró Örn fram ítalskt rauðvín til samanburðar, hún reyndist ekki alveg jafn góð ig hin, en við unnum samt á henni í sameiningu - svona fyrst það var búið að opna hana.

Ég slúðraði svo við þau hjónakornin fram eftir kvöldi. Ég missti töluna á því hversu oft ég tók það fram að nú væri ég bara að tala út úr rassgatinu á mér - but, I guess you had to be there...

Um miðnættið rölti ég til móts við leigubílinn í æðislegu sumarveðri, stillt og hlýtt. Mér flaug meira að segja í hug að rölta heim ofan úr Grafarholtinu, en ákvað að það samræmdist kannski illa yfirvofandi vinnudegi (og svo var bíllinn á leiðinni).

Frábært kvöld.


< Fyrri færsla:
Damn you, Xalazar!
Næsta færsla: >
Fyrirsætutilþrif
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry