Hvað með gróðurinn?

Ég áttaði mig á því í dag að nú hefur ekki rignt í rúma tvo sólarhringa. Hvað verður eiginlega um blessaðan gróðurinn? Mér er spurn. Heima í sveitinni þar sem aldrei rignir (en úðinn getur stundum orðið svolítið þéttur) var það viðkvæðið þá sjaldan úðaði úr lopti að þetta væri nú gott fyrir gróðurinn...

Verandi forframaður úr útlandinu lét ég það vera að fletta mig klæðum eins og samlandar mínir þegar ég rölti heim á leið úr vinnunni. Í Hagkaup(i/um) í Skeifunni hafði hins vegar einhver ákveðið að skrúfa vel upp í kyndingunni og þar var dómadagshiti. Líklega hefur það verið til að strípalíngar nýlega búnir að kasta lopapeysunni fyrir stuttbuxur fengju ekki kuldalost við að koma inn úr sólinni.

Ég bölvaði nú stundum takmörkuðu úrvali í Netto og Fakta í kóngsins Köben, en ég lenti í þveröfugum vandræðum í Hagkaup(i/um) - vissi bara ekkert hvað ég átti af mér að gera í öllu úrvalinu. Vissi þó að mig langaði í grillkjöt, en vissi um leið að það kæmi ekki til greina án þess annað hvort að bora fyrir gasi í lóðinni eða fara í leiðangur út á bensínstöð.

Keypti í staðinn Cheerios og Pringles.


< Fyrri færsla:
Aðvörun: Yfirþyrmandi monthætta
Næsta færsla: >
Leynifélag lubbanna?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry