Bræður munu golfast

Á laugardaginn var haldið hið árlega bræðramót í golfi á Setbergsvelli í Habbnarfirði. Réttara væri ef til vill að segja að það hafi verið haldið á laugardagsmorgni, enda voru barefli dregin út úr sjálfrennireiðum fyrir klukkan níu! Ég hélt uppteknum hætti og sýndi mest bruðl með höggafjöldann (og reyndar kúlur líka).

Í æfingaskyni doblaði ég félaga Sæberg með mér á Seltjarnarnesið á föstudagskvöldinu að berja nokkrar fötur af æfingasvæðinu. Þar voru fyrir Sigmar bróðir og Dabbi vinur hans sem var sérlegur gestakeppandi á bræðramótinu.

Baddi MA-ingur skaut svo upp kollinum á næstu mottu við mig og á bílastæðinu á leið heim rakst ég á doktor Arnar. Allir í golfi.

Þaðan kíktum við í bæinn, enda ekki annað hægt í þessu dýrðarveðri. Ég lét mér einn bjór nægja, enda stefnt á vöknun klukkan átta morguninn eftir. Við þvældumst á milli staða og vorum sammála um að blandan væri heldur óvenjuleg. Mikið af "fullorðnu" fólki og túristum, en minna af hefðbundnum barrottum.

Ég var kominn heim um tvöleytið, en svaf heldur laust þannig að ég var heldur lítt sofinn þegar ræst var á laugardagsmorgninum.

Ég lagði upp með slatta af kúlum í kylfupokanum, en tókst að týna þeim öllum - og nokkrum til viðbótar sem ég fékk lánaðar hjá Ella og Sigmari. Það versta var þó að mér virðist hafa tekist að glutra niður sokknum af tréþristinum mínum.

Stoltastur var ég af því að ná einni holu, þeirri síðustu, þrátt fyrir að hafa sett í glompu. Þegar ég ætlaði að berja kúluna upp úr glompunni kom í ljós að hún hafði skoppað upp úr aftur!

Eftir þrjá tíma í sólinni var ekki laust við að maður væri hálf dasaður. Ég tók það því rólega heima við fram undir miðjan dag (með Sigmar sofandi í sófanum) og fékk svo far með Ármanni og Dillu upp í Heiðmörk í leiklistarskólahitting.

Ég var ekki stemmdur í að vera þar mjög lengi, þannig að eftir um tveggja tíma stopp fékk ég far með Sigga heim. Um kvöldið var ég svo bara í rólegheitum í sófanum.

Næstu golftilþrif verða að kaupa slatta af reynsluboltum og golfhanska. Þá mun mér fara ýkt fram og kannski ná að pressa meira á þá bræður mína á næsta ári.

En ég mun veita þeim harðari baráttu í Reykjavíkurmaraþoninu eftir nokkrar vikur...


< Fyrri færsla:
Fjölmiðlafár
Næsta færsla: >
Tvær tilvísanir
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry