ágúst 2005 - færslur


Okkar Bjór kominn í Moggann

Þar kom að því. Í pappírsútgáfu Moggans í dag er smá klausa um open source bjórinn okkar (í viðskiptakálfinum). Mér sýnist þar vera farið nokkurn vegin rétt með allar helstu staðreyndir, þótt mér þyki þýðingin á nafni skólans soldið skrýtin...

Hvíthattahakk (m. spagettí)

Mér skilst að tölvuhökkurum sé gróflega skipt í tvo flokka. Annars vegar þeim sem pota í öryggisholur af forvitni; athuga hvað þeir komast langt og láta svo viðkomandi aðlia vita af því að öryggi þeirra sé ábótavant, hins vegar þeir sem brjótast inn til að valda einhvers konar óskunda og láta engan vita. Innblásið af myndmáli klassískra vestra eru þeir fyrrnefndu kallaðir "white hat hackers" og hinir "black hat hackers" - enda vitað mál að góðu gæjarnir eru alltaf með hvíta kábbojhatta. Í nýliðinni viku tók ég (óvart) smá hvíthattaskorpu.

Af hljóðbókum

Frá og með fyrsta vinnudegi hef ég tekið iPodinn með mér í strætó kvölds og morgna. Fyrst með tónlist, en undanfarnar tvær vikur eða svo með hljóðbækur, í augnablikinu Haunted eftir Chuck Palahniuk.

Helgin fyrri þeirri sem nú er senn liðin

Áður en þessi letihelgi líður endanlega undir lok er máski rétt að færa til bókar atburði verslunarmannahelgarinnar. Að þessu sinni varði ég versló á fornum heimaslóðum í foreldrahúsum (þótt hús þau hafi tæknilega ekki talist til heimaslóðanna í uppvexti mínum). Þar varði ég líka sumarfríinu mínu í ár; síðastliðnum þriðjudegi.

Spammaður!

Og þá er komið að því að vond vélmenni eru farin að nota athugasemdakerfið mitt til að koma linkaspammi frá sér. Þetta virðist hafa byrjað 30. júlí og er núna dreift á nokkrar gamlar færslur. Allt spam eldra en tveir sólarhringar hverfur sjálfkrafa, en mér sýnist ljóst að ég þurfi að skrúfa örlítið upp í öryggisstillingunum.

Food and shopping

Það er meiri óáran að vera svona í vinnu, maður hefur ekki tíma til að færa dagbók - sérstaklega þegar maður er svo upptekinn á kvöldin. En síðasta fimmtudag fékk ég mjög merkilega beiðni á MSN þegar vinkona mín úr náminu, Lydia, spurði mig hvort ég væri til í að skrifa stutta sögu um "food and shopping". Ég kom af fjöllum.

Af hlaupum

Þá er innan við vika í Reykjavíkurmaraþonið með sínum 10 kílómetrum og innan við tvær vikur í brottför til útlandsins. Hlaupaæfingar hafa heldur legið í láginni þessa viku, enda hef ég verið iðinn við að fara í heimsóknir á kvöldin og ekki gefið mér tíma í sprikl. Undirbúningur fyrir utanför er hins vegar nokkurn vegin eins og við er að búast (þ.e. lítill sem enginn).

Innrás lamadýra í hugskot mín

Í prýðilegum bröns um helgina barst talið meðal annars að lamadýrum (skiljanlega) og þar fékk ég þá flugu í höfuðið að ef ég einhverntíman reyni að skrifa leikrit í fullri lengd fyrir Hugleik þá skulu vera eitt eða fleiri lamadýr í því stykki. Að vísu veit ég ekki til þess að nein lamadýr séu meðal félagsmanna en leikmunadeildin fer eflaust létt með að galdra fram nokkur stykki ef þess gerist þörf.

Kitli kitl

Yfirskrift viðtals við Össur Skarphéðinsson í Blaðinu í gær er "Borgarstjórastóllinn kitlar". Ég á reyndar bágt með að trúa því, en vil ekki væna Össur um ósannsögli og spyr því; er ekki bara hægt að redda nýjum stól?

Hlaup afstaðið

Þá er Reykjavíkurmaraþoni lokið í ár. Við bræður mættum allir til leiks í 10 km og komum allir í mark án vandræða. Af bræðra(ein)vígi er það helst að frétta að Elli dustaði rykið af gömlum afreksíþróttatöktum og flengdi okkur. Sigmar sýndi hins vegar stóra bróður sínum tilhlýðilega virðingu og hélt sig nokkuð fyrir aftan.

Rauntími: 51:33

Þá hafa opinberir hlaupatímar í Reykjavíkurmaraþoninu verið gerðir... opinberir. Rauntími minn (þ.e. miðað við hvenær ég steig yfir ráslínuna) er 51:33 sem ég er mjög sáttur við. Sérlega í ljósi þess að fyrir hlaup var stefnan sett á ca. 55 mínútur.

Flugeldar í biðskýli

Undanfarin ár höfum við systkinabörnin í föðurættina mína haft það fyrir sið að hittast og grilla á menningarnótt, þar er yfirleitt það mikið stuð að við rétt náum á handahlaupum niður í bæ fyrir flugeldasýninguna. Í ár varð reyndar ekkert úr því, þannig að ljóst var að þessi menningarnótt yrði með óvenjulegu sniði - áður en hún hófst.

Hugleixkur höfundafundur

Í gærkvöldi greip ég hjól litlusystur traustataki og sté fákinn út á Eyjaslóð á fund í höfundahópi Hugleiks. Þar voru lesnir og ræddir fjölmargir einþáttungar auk spjalls um komandi leikár. Það verður ekki annað sagt en það verði nóg um að vera ef allar hugmyndir verða að veruleika.

Spúkí

Þessi frétt frá BBC um trójuhest sem stelur lykilorðum og kreditkortanúmerum er töluvert spúkí. Sérstaklega ef það er rétt sem ég þykist lesa milli línanna að eldveggur myndi ekki grípa útsend gögn. Sem betur fer er ég alveg hættur að nota Internet Explorer þegar ég heimsæki vefi tileinkaða klámi og ólöglegum hugbúnaði...

Kaffisopinn

Eftir að hafa skafið vandlega af disknum lagði hann kökugaffalinn frá sér líkt og með eftirsjá. Hann virtist vera að velta því fyrir sér í fullri alvöru að taka diskinn upp og sleikja af honum leifarnar af sultublönduðum rjóma, en þess í stað leit hann djúpt í augun á henni.

Helvítis tímamismunur

Í morgun þurfti ég að hringja í húsvörðinn í kollegíinu sem ég er að flytja inn í til þess að ákveða hvernig ég nálgast lyklana þegar ég mæti á staðinn. Viðtalstími hans er milli 8 og 9 á morgnana, sem á íslenskum tíma er 6-7(!). Ég stillti því vekjaraklukkuna á að vekja mig klukkan 6 og var fyrir vikið alltaf að vakna í nótt og tékka hvað klukkan væri.

Heimilislaus í Køben

Það fór aldrei svo að dvöl mín þetta árið hæfist ekki með smá ævintýri. Niðurstaðan varð sú að fyrstu helgina mína í borginni var ég í raun heimilislaus og það var ekki fyrr en í gær sem ég komst inn á kollegíið. Gestrisni Hönnu Birnu og Jesper bjargaði mér reyndar, svo þetta varð notaleg helgi - þótt ég hefði gjarnan viljað nota hana til að flytja inn eins og til stóð.

Hin nýju heimkynni

Á mánudagsmorgninum komst ég loks inn á kollegíið með rétta lykla og alles. Fyrsta tilfinning fyrir herberginu var reyndar að það væri dimmt og hálf óspennandi, en eftir að hafa loftað út og byrjað að nota það aðeins líst mér vel á þetta. Það hljóta að teljast viss meðmæli að mér sýnist að fyrri íbúi hafi verið í herberginu í fjögur ár.