Af hljóðbókum
06. ágúst 2005 | 0 aths.
Frá og með fyrsta vinnudegi hef ég tekið iPodinn með mér í strætó kvölds og morgna. Fyrst með tónlist, en undanfarnar tvær vikur eða svo með hljóðbækur, í augnablikinu Haunted eftir Chuck Palahniuk.
Elli bróðir prófaði að kaupa nokkrar hljóðbækur hjá Audible.com og ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi fengið tvær þeirra lánaðar hjá honum, enda væri það brot á notkunarskilmálum...
Eftir að hafa hlustað á Skin Dip og I Don't Know How She Does It - og líkað vel - ákvað ég sjálfur að prófa að kaupa nokkrar bækur.
Hljóðbækur virðast almennt til í tveimur útgáfum, fyrst er gefin út stytt útgáfa sem er oft um 3-5 tímar í flutningi. Síðar kemur út Unabridged útgáfa sem getur verið allt að 20 tímar á lengd.
Það virðist sem þeir sem til þekki snobbi fyrir óstyttu útgáfunum, kannski skiljanlega, enda eru það ritverkin í þeirri útgáfu sem höfundurinn skilaði þeim af sér. Mér fannst hins vegar áhugaverðara að kaupa þrjár bækur á 3-4 tíma hver, heldur en að borga sama pening fyrir eina bók í fullri útgáfu upp á hátt í sólarhring.
Ég hef samt aldrei velt því sérstaklega fyrir mér hvað maður notar í raun mikinn tíma í að lesa góða bók. A.m.k. hef ég ekki gert greinarmun á því að grípa bók upp á 200 blaðsíður eða 1200 - maður les bara þar til maður er búinn.
Þetta virðist ágæt verslun hjá þeim Audibilum, þær bækur sem maður kaupir verða aðgengilegar í lokuðu "bókasafni", þannig að maður getur hlustað á þær nettengdur eða halað þeim niður, t.d. fyrir iTunes. Ég hafði vissar áhyggjur af því hvernig færi ef niðurhalið klikkaði (nettengingin hjá Símanum dettur nokkuð reglulega út) en það er ekkert til að hafa áhyggjur af.
Ég keypti sem sé:
- America - John Stewart (Daily Show)
- Haunted - Chuck Palahniuk (óstytt)
- Life of Pi - Yann Martel
Hljóðbækur á geisladiskum sýnist mér kosti frá ca. 3000 krónum í Eymundsson, þegar ég keypti bækurnar á Audible voru tilboð í gangi þannig að ég fékk þær þrjár á ca. 1800 kall - sem ég held að sé vel sloppið.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry