Helgin fyrri þeirri sem nú er senn liðin

Áður en þessi letihelgi líður endanlega undir lok er máski rétt að færa til bókar atburði verslunarmannahelgarinnar. Að þessu sinni varði ég versló á fornum heimaslóðum í foreldrahúsum (þótt hús þau hafi tæknilega ekki talist til heimaslóðanna í uppvexti mínum). Þar varði ég líka sumarfríinu mínu í ár; síðastliðnum þriðjudegi.

Þar sem ég ákvað að fljúga ekki austur fyrr en á laugardegi skellti ég mér á brokk að kvöldi föstudags og spreytti mig öðru sinni á 8,5 kílómetra skokkhringnum. Þar lenti ég í því að púnkterast á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu (eftir ca. 7 km. eða svo), ekki vegna þreytu heldur var það trúlega sykurskortur - enda var soldið liðið síðan ég hafði síðast borðað eitthvað. Af forsjálni var ég með súkkulaðibita í vasanum sem hressti mig hratt við. En í stað þess að vera skynsamur og rölta bara heim tók ég aftur til trimmsins eftir nokkur hundruð metra rölt.

Fyrir vikið var ég lengi að ná almennilegu jafnvægi í skrokkinn, jafnvel eftir sturtu og kvöldmat. Þannig að ég lufsaðist bara hálfdasaður í sófanum fram eftir kvöldi.

Fluginu var svo seinkað vegna vélavandræða hjá Flugfélaginu (líklega bara að færri voru á leið austur en gert hafði verið ráð fyrir og því slegið saman tveimur vélum til að geta grætt meira á eyjaförum). Ég lenti á Egilsstöðum um kvöldmatarleytið og mætti beint í grillveislu eina allógurlega þar sem grillaðir voru lærvöðvar hinir innri af mikilli íþrótt.

Fljótlega eftir að hafa tyllt tá á austurlandsfjórðung varð ég þess áskynja að einhver "Gísli" virtist skyndilega kominn í sjálfsagðan orðaforða heimilisfólks. As in "ég fer úteftir og sæki Gísla og kem svo aftur með kerruna".

Ekki veit ég hvort systir mín gleðst eða hryggist yfir því, en ég verð að viðurkenna að mér flaug aldrei í hug að þetta gæti ef til vill verið nýtilkominn tengdasonur. Enda var svo alls ekki, heldur hefur fjölskyldumeðlimur sem áður var bara kallaður Pajero nú fengið stofnað um sig hlutafélag og heitir eftir það Gísli í Gröf. (Sbr. umsungnu kaupakonuna hans Gísla í Gröf sem var glettin og hýr á brá.)

Um miðjan dag á sunnudegi fórum við feðgin út í bústað á fjölskyldumeðlimnum SantaFe þar sem við Mardí vísiteruðum Birnu 'inspector' stórfrænku og Ragnhildi vinkonu hennar sem réðu ríkjum í Frændagarði (sem er ekki fjölskyldumeðlimur heldur sumarbústaður - reyndar stórfjölskyldunnar en það er óþarfa útúrdúr að fara nánar í þá sálma hér).

Þar var boðið upp á snilldar rabarbarabakkelsi byggt á Homeblest og kremkexi auk snarpra rimma í víkingaspilinu Kubb.

Spil það gengur í stuttu máli út á að stillt er upp 11 trékubbum og svo á maður að kasta tréstöngum til að fella trékubbana sem þá er sjálfum kastað (af hinu liðinu) og svo stillt upp til að vera felldir aftur með tréstöngunum og svo ef kubbarnir falla ekki allir má færa sig framar og svo þegar búið er að fella alla lausu kubbana og svo þá sem eru á endalínunni má svo henda í kónginn (sem má alls ekki gera fyrr) og þá vinnur maður. (Og hvað eru mörg svo í því?)

Einfalt, ekki satt?

Meðan á þessum hendingum stóð fór pabbi með áðurnefndan Gísla að sækja vatn og aðrar nauðsynjar, auk þess að smala nokkrum rolluskjátum einn síns liðs - svona í leiðinni.

Á frídeginum búðarmanna gengum við feðgin í Stórurð með viðkomu í sjálfsalanum hans Kidda, þurftum reyndar að sitja af okkur þoku um stund (við upphaf göngu - ekki í sjálfsalanum) og fengum ekki alveg fullt útsýn á leiðinni af hennar völdum. Gangan gekk að öðru leyti vel og urðin er tilkomumikil.

Sumarfríið mitt þetta árið (þriðjudagurinn) fór annars að mestu í að spila golf. Eftir að hafa sofið aðeins frameftir og velt vöngum yfir því með karli föður hvernig verja mætti deginum endaði með því að við skelltum okkur í golf á Ekkjufellsvellinum. Ég byrjaði venju fremur vel (þ.e. gerði engin stórvægileg mistök), en hrakaði síðan fimin þegar leið á leik.

Eftirminnilegasta afrekið var líklega þegar ég sló upphafshögg og varð litið upp í sólina þannig að ég missti algerlega af því hvert kúlan fór. Ég þóttist þó hafa hitt þokkalega þannig að kúlan ætti að vera inni á braut - spurningin var bara hvar...

Eftir að hafa stjáklað brautina fram og til baka endaði með því að ég afskrifaði kúluna og hljóp til baka til að taka annað upphafshögg. Á leiðinni hljóp ég fram á kúluskrattann sem í stað þess að fljúga rúma hundrað metra hafði í mesta lagi skreiðst einhverja þrjátíu (og það í vitlausa stebbnu).

Eftir einn og hálfan hring létum við gott heita og ég játaði ósigur minn - þótt ekki væri hann jafn stór og oft áður. Það er nebbnilega þannig með golfíþróttina og mig að ég á miklar framfarir inni...

Flugið heim á þriðjudagskvöldinu var svo tíðindalaust með öllu.

Lauk þar formlegu sumarfríi þessa árs.


< Fyrri færsla:
Af hljóðbókum
Næsta færsla: >
Spammaður!
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry