Innrás lamadýra í hugskot mín

Í prýðilegum bröns um helgina barst talið meðal annars að lamadýrum (skiljanlega) og þar fékk ég þá flugu í höfuðið að ef ég einhverntíman reyni að skrifa leikrit í fullri lengd fyrir Hugleik þá skulu vera eitt eða fleiri lamadýr í því stykki. Að vísu veit ég ekki til þess að nein lamadýr séu meðal félagsmanna en leikmunadeildin fer eflaust létt með að galdra fram nokkur stykki ef þess gerist þörf.

Þessari hugdettu fylgdu reyndar hvorki hugmyndir að fléttu né persónum öðrum, en það hafa nú verið skrifuð leikrit kringum ómerkilegri fyrirbæri en lamadýr!

Þegar ég ætlaði svo að fara að sofa í mínu mesta sakleysi í gærkvöldi skaut lamadýrinu ásamt óljósum fylgifiskum upp í hugskotum og kvarnir tóku að snúast. Með þeim neikvæðu afleiðingum raunar að ég sofnaði mun seinna en til stóð - en það virðist þó ekki hafa komið að sök það sem af er degi.

Á þessu stigi gæti lamaverkið orðið að dramatískri frásögn um erjur tveggja fjölskyldna. Eins konar Rómeó og Júlía á Arnarnesinu, með lamadýri. Reyndar veit ég ekki hvort þarna verða Rómeó né Júlía, en ættfeður og -mæður eru farnar að taka á sig mynd.

Var ég búinn að nefna að lamadýr myndi koma við sögu?

Mér flaug meira að segja í hug í nótt að ræna með húð og hári persónu úr allt öðru leikriti (sem mér vitanlega hefur enn ekki verið sett á svið). Að því gefnu auðvitað að ég fái leyfi viðkomandi höfundar til þjófnaðarins.

(Heitir það ekki annars á bókmenntamáli "tilvísun í önnur verk" ef maður stelur úr þeim hugmyndum?)

Stóra spurningin í augnablikinu er þó ekki hvort eða hvar hinir ungu elskendur myndu koma við sögu, heldur hvort lamadýrið á að heita Phar eða Dalæj.

Með vísun til slagorðs Sykurmolanna/Smekkleysu hef ég tekið upp einkennisorð fyrir leikritaskrif mín (sem undanfarið hafa reyndar verið í algeru lágmarki):

Lamadýr eða dauði!


< Fyrri færsla:
Morgunmantra
Næsta færsla: >
Kitli kitl
 


Athugasemdir (3)

1.

Sævar reit 19. ágúst 2005:

Mér líst feykivel á komandi lama-drama. Eða er þetta kannski gamandrama með lama? Þetta er vel þekkt og virt aðferð við leikritaskrif. Átta hugleikshöfundar sameinuðust um að láta sér detta í hug að það yrði að vera strútur á Korpúlfsstöðum í Embættismannahvörfunum. Og hann var töfraður fram. Benedikt Egilsson, persóna í Fáfnismönnum tók ekki annað í mál en það yrðu ísbirnir - margir ísbirnir - í leikgerð Fáfnismanna á Litlu stúlkunni með eldspýturnar (til að túlka allan kuldann sjáðu til). Hann fékk því reyndar ekki framgengt. En Rómeó og Júlía með lamadýri finnst mér mun betri hugmynd en 7 Júlíur og 3 Rómeóar eins og Mónakófararnir þurftu að upplifa.
Mig dreymir um leikrit með ófleygum hrægömmum.

2.

Þórarinn.com reit 22. ágúst 2005:

Eigum við ekki að kalla þetta gamansamt drama með lamatísku ívafi?

Lamadýrin hafa reyndar lítið ásótt mig í draumi undanfarið, þannig að hugmyndin hefur ekki náð að mótast frekar. Koma tímar, koma ráð (og draumfarir).

3.

Sævar reit 22. ágúst 2005:

Ljótt ef þau hafa náð að lama draumstöðvarnar.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry