Flugeldar í biðskýli

Undanfarin ár höfum við systkinabörnin í föðurættina mína haft það fyrir sið að hittast og grilla á menningarnótt, þar er yfirleitt það mikið stuð að við rétt náum á handahlaupum niður í bæ fyrir flugeldasýninguna. Í ár varð reyndar ekkert úr því, þannig að ljóst var að þessi menningarnótt yrði með óvenjulegu sniði - áður en hún hófst.

Þökk sé framtakssemi minni og skipulagshæfileikum var ég ekki með neitt plan B, en óljósar fyrirætlanir um að heyra í fólki þegar ég kæmi í bæinn.

Letikast yfir enska boltanum þróaðist yfir í svæsinn höfuðverk, sem varð ekki til að auka dugnaðinn. Verkjatöflur og kvöldmatur dugðu til að losna við höfuðverkinn og ég rölti niður í bæ um níuleytið.

Menningarnótt ársins má í stuttu máli lýsa sem:

  • Hátt í hundrað þúsund ókunnug andlit
  • Slatti af andlitum sem voru kunnugleg án þess að viðeigandi nafn finndist í minni
  • Slatti af andlitum hvurs nafn ég mundi en hafði ekki áhuga á að spjalla við
  • Með ólíkindum fáir úr vina- og kunningjahópnum

Eftir að hafa reynt að ná á Ella bróður og barnavagnagengið án árangurs og rölt um neðri hluta Laugavegs og Bankastræti ákvað ég að gera það sem mig langaði allra mest að gera - fara snemma að sofa.

Það atvikaðist því þannig að þegar flugeldasýningin hófst og himnarnir opnuðust leitaði ég skjóls í strætóskýli við Suðurgötu og horfði á flugeldana þaðan. Feginn að það væri ekki nema 5 mínútna gangur í skjól undan regninu...

Eftir að flugeldasýningunni lauk hélt ég að það væri að stytta upp og hélt áfram för. Um leið og regninu hafði tekist að draga mig út úr skjóli var allt skrúfað í botn og úrhellið varð þvílíkt að ég átti allt eins von á því að sjá eldingarbjarma.

Ég endaði með því að hlaupa við fót síðasta spölinn en var samt orðinn vel votur þótt ég væri í góðum jakka.

Síðasta laugardagskvöld mitt á Íslandi þetta sumarið fer því hvorki í sögubækur fyrir djammtilþrif né menningarinnbyrðingu...


< Fyrri færsla:
Rauntími: 51:33
Næsta færsla: >
Hugleixkur höfundafundur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry